Áhrifavaldar verða sífellt meira áberandi í íslenskri dægurmálaumfjöllun en ekki síður umfjöllun um markaðsmál. Áhrifavaldar eru þau kölluð sem sinna markaðssetningu í gegnum samfélagsmiðla en mikil umræða hefur verið um svokallaðar duldar auglýsingar og vöruinnsetningar hjá þessum hópi. Markaðs- og auglýsingastofur hafa beint fjármagni í meira mæli en áður til þessara einstaklinga sem geta náð beint til sinna fylgjenda í gegnum miðlana.
DV birti í Tekjublaði sínu skráð mánaðarlaun nokkurra vinsælustu áhrifavalda landsins.
Sólrún Diego áhrifavaldur og þrifbókarithöfund er með skráðar tekjur upp á 320 þúsund á mánuði samkvæmt Tekjublaði DV. Sólrún er einn vinsælasti snappari landsins og nær til þúsunda í gegnum samskiptaforritin Snapchat og Instagram, þar sem hún er með um 26 þúsund fylgjendur. Hún hefur vakið mikla athygli fyrir tilburði sína þegar kemur að þrifum og gaf fyrir jólin út metsölubókina Heima þar sem hún gaf góð ráð í heimilishaldi.
Birgitta Líf Björnsdóttir áhrifavaldur og framkvæmdastjóri er með skráðar tekjur upp á 527 þúsund krónur á mánuði. Birgitta er einnig snappari og tískubloggari á heimasíðunni Trendnet. Birgitta er vinsæl á samfélagsmiðlum, bæði sjálf og undir hattir RVKfit sem hún rekur með vinkonum sínum og veitir góð ráð og innblástur þegar kemur að hreyfingu og heilsu almennt.
Sunneva Eir Einarsdóttir samfélagsmiðlastjóri hjá umboðsskrifstofunni Eylenda er ekki síðri áhrifavaldur en hinar tvær fyrrnefndu. Sú er með skráðar mánaðartekjur samkvæmt DV upp á 305 þúsund krónur á mánuði. Sunneva er með meira en 30 þúsund fylgjendur á Instagram.
Ingileif Friðriksdóttir laganemi og áhrifavaldur er með 225 þúsund krónur í mánaðarlaun. Ingileif var lengi bloggari á síðunni Mamie, stýrði Hinseginleika snappinu þar sem hún og unnusta hennar María Rut Kristinsdóttir fræddu fylgjendur um réttindi LGBT fólks og fleira því tengt auk þess sem Ingileif stýrði samnefndum vefþætti fyrir RÚV. Ingileif var í síðasta mánuði valin Framúrskarandi ungur Íslendingur af samtökunum JCI.
Guðrún Veiga Guðmundsdóttir snappari er einnig einn vinsælasti áhrifavaldurinn í dag en hún er með skráðar 247 þúsund krónur í mánaðarlaun. Hún kemur daglega fram á Snapchat þar sem hún er þekkt fyrir afar hispurslausa framkomu, auk þess sem hún er förðunarfræðingur og matarbókahöfundur og sjónvarpskona, en hún gerði þættina Nenni ekki að elda árið 2014. Guðrún Veiga eignaðist annað barn sitt í maí á síðasta ári og hefur því verið í fæðingarorlofi stóran hluta ársins.
Manuela Ósk Harðardóttir fyrrverandi fegurðardrottning og stjórnandi Miss Universe Iceland var meðal fyrstu íslensku samfélagsmiðlastjarnanna. Manuela er með 16 þúsund krónur í mánaðarlaun samkvæmt DV en stóran hluta síðasta árs var Manuela við nám í Bandaríkjunum. Manuela er með meira en 50 þúsund fylgjendur á Instagram og mjög vinsælan Snapchataðgang.