Bragi Skúlason sjúkrahúsprestur á Landspítala er launahæsti stjórnandi trúfélags landsins samkvæmt Tekjublaði Frjálsrar verslunar. Hann er þar með rétt tæplega 1,5 milljón í mánaðartekjur.
Hjörtur Magni Jóhannsson fríkirkjuprestur í Reykjavík kemur þar á eftir með nokkurn veginn sömu laun.
Agnes M. Sigurðardóttir biskup Íslands er með 1,3 milljónir samkvæmt Tekjublaðinu.
Karl Sigurbjörnsson fyrrverandi biskiup Íslands er með 1,2 milljónir í mánaðarlaun og eins Sigurður Rúnar Ragnarsson sóknarprestur í Norðfirði sem og Kristján Valur Ingólfsson vígslubiskup í Skálholti.
Pálmi Matthíasson prestur í Bústaðaprestakalli er með 1,1 milljón á mánuði, Þorvaldur Víðisson biskupsritari með sömu mánaðarlaun.
Í Tekjublaði DV kemur fram að Hjálmar Jónsson fyrrverandi Dómkirkjuprestur sé með 1,2 milljónir í mánaðarlaun, Sveinn Valgerisson núverandi Dómkirkjuprestur með 877 þúsund, Einar Eyjólfsson fríkirkjuprestur í Hafnarfirði með 941 þúsund í mánaðarlaun og Sigurður Árni Þórðarson sóknarprestur í Hallgrímskirkju með 869 þúsund.
Toshiki Toma prestur innflytjenda er með 779 þúsund, Geir Waage sóknarprestur í Reykholti með 775 þúsund í mánaðarlaun og Sindri Guðjónsson fyrrverandi formaður Vantrúar með 641 þúsund.
Salmann Tamimi formaður Félags múslima á Íslandi er með 380 þúsund í tekjur á mánuði og Gunnar Þorsteinsson kenndur við Krossinn með 270 þúsund. Hilmar Örn Hilmarsson allsherjargoði með 261 þúsund og Timur Zolotuskiy príor rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar með skráðar tekjur upp á 171 þúsund á mánuði.
Umdeild launahækkun biskups í fyrra
Undir lok síðasta árs úrskurðaði kjararáð um hækkun launa biskups, Agnesar Sigurðardóttur, um tugi prósenta. Í úrskurðinum kom fram að biskup skuli hafa tæplega 1,2 milljónir í mánaðarlaun auk 40 fastra yfirvinnueininga. Ein eining er 9.572 krónur og laun biskups því eftir hækkun alls 1.553.359 krónur á mánuði. Hækkunin var afturvirk til 1. janúar 2017, samkvæmt úrskurðinum. Um áramótin fékk biskup því eingreiðslu fyrir síðasta árið en sú upphæð mun samkvæmt þessu hafa numið 3,3 milljónir króna.
Þjóðkirkjan fær umtalsverða fjármuni úr ríkissjóði. Þaðan er til að mynda greitt framlag til Biskups Íslands, í Kirkjumálasjóð og Jöfnunarsjóð sókna. Samtals er áætlað að þessi upphæð verði 2.830 milljónir króna í ár. Til viðbótar fær þjóðkirkjan greidd sóknargjöld í samræmi við þann fjölda sem í henni er. Ætla má að sú upphæð verði um 1.750 milljónir króna í ár. Samtals mun rekstur þjóðkirkjunnar því kosta tæplega 4,6 milljarða króna í ár. Þá er ekki meðtalið rúmlega 1,1 milljarðs króna framlag til kirkjugarða.
Frá árinu 2009 hefur meðlimum þjóðkirkjunnar fækkað á hverju ári. Þeir voru 236.260 í byrjun árs 2017, eða 69,9 prósent mannfjöldans. Það var í fyrsta sinn síðan að mælingar hófust sem að fjöldi meðlima hennar fer undir 70 prósent mannfjöldans.
Meira en 100 þúsund utan þjóðkirkjunnar
Þeir íslensku ríkisborgarar sem kusu að standa utan þjóðkirkjunnar voru 30.700 um síðustu aldarmót. Í dag eru 111.042 íbúar utan hennar, eða 32 prósent allra landsmanna. Fjöldi þeirra hefur því rúmlega þrefaldast á þessari öld. Á síðasta ári einu saman sögðu 3.738 manns sig úr þjóðkirkjunni, þar af 60 prósent á síðustu þremur mánuðum ársins. Það er næstmesti fjöldi sem hefur sagt sig úr kirkjunni á einu ári. Metið var sett á árinu 2010, þegar ásakanir um þöggun þjóðkirkjunnar yfir meintum kynferðisglæpum Ólafs Skúlasonar, fyrrverandi biskups, voru settar fram. Þá fækkaði um 4.242 í þjóðkirkjunni á einu ári.
Fjöldi þeirra íbúa á Íslandi sem skráðir eru utan trú- og lífsskoðunarfélaga hefur rúmlega tvöfaldast frá því í byrjun árs 2010. Þá voru þeir sem voru skráðir utan slíkra félaga 10.336 talsins. Heildarfjöldi þeirra í dag er yfir 22 þúsund.