Atvinnu-og sjávarútvegsráðuneyti Noregs tilkynnti í gær áform sín um að selja 10% hlut sinn í flugfélaginu. Í kjölfar tilkynningarinnar lækkaði verð á hlutabréfum félagsins um rúm 3% við opnun markaða í dag.
Ríkisstjórn Noregs og NRK greindu frá því fyrr í dag að allir útistandandi hlutir sem norska ríkið átti í flugfélaginu væru seldir, en söluverðið nam 597 milljónum norskra króna, sem jafngildir tæpum 7,9 milljörðum íslenskra króna. Fréttir af sölunni birtist degi eftir tilkynningu atvinnu-og sjávarútvegsráðuneytis Noregs þar sem áhugi ríkisins á að selja hlut sinn í félaginu var tilgreindur. Samkvæmt tilkynningunni segir efnahagsráðherra landsins, Torbjørn Røe Isaksen, að ríkisstjórnin hafi verið skýr með að eiga ekki hluti í SAS til langs tíma.
Forsætisráðherra landsins, Erna Solberg, sagði sömuleiðis að salan hafi lengi legið í kortunum og ríkisstjórnin hafi fullt umboð til þess.
70 ára saga á enda
Með sölunni lýkur meira en 70 ára eignarsögu norska ríkisins á SAS. Flugfélagið, sem fullu nafni heitir Scandinavian Airlines, var stofnað árið 1946 úr samruna opinberra flugfélaga Noregs, Svíþjóðar og Danmerkur. Meginmarkmið félagsins var að vera í stakk búin fyrir langar vegalengdir, en fyrsta áætlunarflug félagsins var á milli Stokkhólms og New York. Árið 2001 fór SAS svo á hlutabréfamarkað í Skandínavíulöndunum þremur, en ríkisstjórnir landanna áttu þá samanlagt helming allra hlutabréfa fyrirtækisins.
Salan hefur verið gagnrýnd af Verkamannaflokknum og Miðjuflokknum þar í landi, en Terje Aasland, talsmaður Verkamannaflokksins, segir ríkisstjórnina virðast ætla að selja hlut sinn til þess eins að selja. Geir Pollestad, þingmaður Miðjuflokksins, segist hræðast sölumaraþon af hálfu ríkisstjórnarinnar, þar sem hún muni selja út mikilvæg fyrirtæki til erlendra aðila.