Laun forstjóra Isavia, Landsvirkjunar og Landsbankans hafa hækkað langt umfram almenna launahækkun á síðustu fjórum árum. Þetta kemur fram í svari fjármálaráðherra við fyrirspurn Þorsteins Víglundssonar á Alþingi.
Í svarinu voru meðallaun forstjóra Isavia, Íslandsbanka, Íslandspósts, Kadeco, Landsbankans, Landsvirkjunar, Orkubús Vestfjarða og Rariks á tímabilinu 2014-2017 birt. Þar að auki var greint frá launabreytingum forstjóranna í júlí 2017 þegar þær tilheyrðu ekki lengur undir Kjararáði.
Laun þeirra allra hækkuðu nokkuð á þessu tímabili að undanskildu Kadeco, en mánaðarlaun forstjóra þess fyrirtækis lækkuðu úr 1.222.656 krónum árið 2014 niður í sléttar 1,2 milljónir í júlí 2017. Að meðaltali hækkuðu laun forstjóranna þó um 29 prósent frá 2014 til júlí 2017.
Fjórföld hækkun
Forstjóralaun þriggja fyrirtækja, Isavia, Landsvirkjunar og Landsbankans hækkuðu hins vegar einna mest á tímabilinu og langt umfram almenna launaþróun. Hjá Isavia hækkuðu þau um 65 prósent, eða úr 1,44 milljónum í 2,38 milljónum. Hjá Landsvirkjun hækkuðu forstjóralaun svo um 95 prósent, eða úr 1,69 milljónum í 3,29 milljónum. Mest var hækkunin þó hjá Landsbankanum, en þar hækkuðu mánaðarlaun forstjórans um 105%, úr 1,58 milljónum í 3,25 milljónum.
Til samanburðar hækkaði launavísitala Hagstofu um 22,5% á umræddu tímabili, frá 2014 til júlí 2017. Launahækkun forstjóranna þriggja er því að meðaltali fjórfalt meiri en almenn launaþróun hefur verið til síðustu fjögurra ára.
Kjarninn fjallaði fyrr í dag um 1,2 milljóna króna hækkun á mánaðarlaun Harðar Arnarsonar, forstjóra Landsvirkjunar í kjölfar þess að launaákvörðunin hafi færst frá Kjararáði. Samkvæmt Fréttablaðinu sagðist Landsvirkjun aðeins hafa verið að efna ráðningasamning við forstjórann, en laun hans hafi lækkað verulega þegar þau voru færð undir kjararáð í febrúar 2010.