Benedikt Bogason hæstaréttardómari hefur áfrýjað dómi héraðsdóms í meiðyrðamáli hans gegn fyrrverandi samstarfsmanni sínum við Hæstarétt, Jóni Steinari Gunnlaugssyni lögmanni. Þetta kemur fram í áfrýjunarskrá á vef Landsréttar.
Héraðsdómur Reykjaness sýknaði Jón Steinar af tveggja milljóna króna kröfu Benedikts vegna meintra ærumeiðinga fyrir tæpum tveimur vikum, en Benedikt vildi meina að fullyrðing Jóns í bók sinni „Með lognið í fangið“ um að rétturinn hafi framið dómsmorð á Baldri Guðlaugssyni, fyrrverandi ráðuneytisstjóra í fjármálaráðuneytinu, væri ærumeiðandi og krafðist þess að þau yrðu dæmd dauð og ómerk.
Benedikt vildi meina að hugtakið dómsmorð væri ærumeiðandi aðdróttun og með þeim hafi Jón Steinar fullyrt að Benedikt hafi af ásetningi komist að rangri niðurstöðu í dómsmáli með þeim afleiðingum að saklaus maður hafi verið sakfelldur og dæmdur í fangelsi.
Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að Benedikt og aðrir hæstaréttardómurum séu hvergi í bókinni sakaðir um refsiverða háttsemi. Jón hafi stundum tekið sterkt til orða í gagnrýni sinni á Hæstarétt en þegar umfjöllun hans sé virt í heild verður talið að hann hafi notað hugtakið dómsmorð í óeiginlegri eða yfirfærðri merkingu, aðallega til þess að leggja áherslu á orð sín. Ummælin voru því ekki dæmt ómerk og Jón sýknaður af öllum kröfum Benedikts.