Fyrri undanúrslitaleikurinn á Heimsmeistaramótinu í knattspyrnu fer fram klukkan sex í dag og er sannkallaður nágrannaslagur þegar lið Frakklands mætir liði Belgíu.
Sigurvegari leiksins mun mæta annað hvort Króatíu eða Englandi í úrslitaleik mótsins sem fram fer á sunnudag. Frakkar hafa einu sinni orðið heimsmeistarar - Belgar aldrei, né heldur hafa þeir náð í úrslitaleikinn.
Bæði liðin unnu riðla sína á mótinu. Frakkland var í riðli með Danmörku, Perú og Ástralíu en Belgar voru með Englendingum, Panama og Túnis. Frakkar unnu síðan Argentínu í sextán liða úrslitum en Belgar slógu út Japani. Belgar unnu að lokum frábæran sigur á fimmföldum heimsmeisturum Brasilíu í 8-liða úrslitum. Frakkar hins vegar slógu út tvöfalda heimsmeistara liðs Úrúgvæ.
Liðin tvö þekkjast vel. Leikurinn sem fram fer í kvöld verður 74. skiptið sem liðin mætast. Belgar hafa oftar unnið, 30 viðureignir, Frakkar hafa tekið 24 viðureignir og 19 sinnum hafa liðin skilið jöfn.
Belgar unnu síðustu viðureign liðanna sem fram fór árið 2015 á State de France í París, 4-3. Síðasti keppnisleikur milli liðanna var leikur um 3. sæti á HM 1986 í Mexíkó. Þar unnu Frakkar 4-2 eftir framlengingu.
Leikurinn á eftir verður í fyrsta sinn frá árinu 2006 sem Frakkar ná í undanúrslitin. Á því móti kom Zinedine Zidane liðinu í undanúrslitin með marki úr vítaspyrnu gegn Portúgal. Leikurinn fór 1-0. Belgar hafa einu sinni komist í undanúrslitin, á mótinu í Mexíkó árið 1986. Þá töpuðu þeir 2-0 gegn Argentínu, sem urðu meistarar á mótinu.
Franska landsliðshetjan og goðsögnin Thierry Henry er röngu megin við borðið að þessu sinni, en hann er aðstoðarþjálfari Belga. Henry lék 123 landsleiki fyrir Frakkland og skoraði í þeim 51 mark. Þjálfari franska liðsins, Didier Deschamps, lék með Henry í landsliðinu á sínum tíma og hefur látið hafa eftir sér að Henry sé nú óvinur Frakklands. „Hann er að mæta sinni eigin þjóð. Þegar hann gerðist aðstoðarþjálfari Martinez þá vissi hann að þetta gæti gerst. Þetta er furðuleg staða og ekki auðveld fyrir hann.“
Leikurinn er sem fyrr sýndur í beinni útsendingu á RÚV.