Króatar unnu Englendinga í framlengdum afar spennandi undanúrslitaleik í kvöld, 2-1. Þeir munu mæta liði Frakklands í úrslitaleiknum á sunnudag. Englendingar sem sitja eftir með sárt ennið munu spila upp á bronsið gegn Belgum á laugardag.
Sigur Króata er sögulegur en þjóðin hefur aldrei komist svo langt á heimsmeistaramóti. Leikurinn í kvöld var í annað sinn sem þeir komast í undanúrslitin, fyrra skiptið var árið 1998, fyrir sléttum tuttugu árum, þegar þeir töpuðu 2-1 fyrir Frökkum sem urðu á endanum heimsmeistarar. Liðið hefur því harma að hefna á sunnudaginn.
Eftir sterka byrjun hjá Englendingum sem komust yfir á fimmtu mínútu með sérlega flottu marki úr aukaspyrnu frá Trippier var leikurinn frekar rólegur og nokkuð jafn þar sem bæði lið fengu góð tækifæri til að skora.
Króatar voru síðan mun sterkari í seinni hálfleik og náðu að jafna á 68. mínútu með marki frá Ivan Perisic.
Leikurinn fór síðan í framlengingu, en allir leikir Króatíu hingað til í útsláttarkeppni mótsins, þ.e. bæði sextán liða úrslitin og átta liða, hafa endað með framlengingum. Í hinum leikjunum þurfti þó að grípa til vítaspyrnukeppna en þess þurfti ekki í kvöld þar sem hetja Króata, framherjinn Mario Mandzukic, náði að setja boltann í netið í seinni hálfleik framlengingarinnar.
Englendingar sóttu af miklum krafti en án árangurs og þurfa víst að bíða í fjögur ár í viðbót eftir að fótboltinn komi „heim“.