Nær helmingur karlmanna sem svöruðu netkönnun tímaritsins Harvard Business Review sögðust hafa gert eitthvað í fortíðinni sem yrði skilgreint sem kynferðisleg áreitni í dag. Könnunin mældi einnig áhrif #MeToo og #TimesUp á vinnustaði, en þau eru talin óljós samkvæmt frétt á vef tímaritsins sem birtist í gær.
Samkvæmt fréttinni lét tímaritið gera könnun til þess að skoða eftirfylgni #MeToo og #TimesUp byltinganna sem vöktu athygli á kynbundinni áreitni í garð kvenna síðasta vetur. Könnunin var framkvæmd á netinu og alls svöruðu 1.100 manns henni, en flestar spurningarnar sneru að því hvort einhverjar breytingar hafi átt sér stað á vinnustöðum svarendanna vegna byltinganna.
Heilt yfir sýndi könnunin jákvæð viðhorf í garð umræðunnar um kynferðislega áreitni, en um 63% viðmælenda lýstu #MeToo sem „heilbrigðri,“ auk þess sem 45% þeirra segja það hafa orðið öruggara að deila eigin reynslusögum af ofbeldi. Þá höfðu 28% svarenda deilt eigin sögu um kynferðislegaa áreitni, en 41% viðmælenda þekktu einhvern sem hafði gert það.
Frétt Harvard Business Review segir svör karlkyns viðmælenda könnunarinnar hafa staðfest umfang vandamálsins sem byltingarnar færðu í sviðsljósið. Nær helmingur þeirra sögðust hafa einhvern tímann í fortíðinni tekið þátt í athæfi sem nú væri skilgreint sem kynferðisleg áreitni eða misferli.
Þegar kom að því að mæla raunverulega eftirfylgni #MeToo og #TimesUp á vinnustöðum voru niðurstöður könnunarinnar hins vegar óskýrar. Um 56% viðmælenda sögðust hafa fundið fyrir einhverjum framförum, en aðeins um þriðjungur vildi meina að framfarirnar hafi verið meiri en litlar. Aðeins 19% kvenmanna og 23% karlmanna sögðu vinnustaðinn sinn hafi hrundið af stað starfsmannaþjálfun sem miðaði að samskiptum kynjanna auk þess sem 23% kvennna og 17% karlmanna sögðust hafa séð haldbærar breytingar á vinnustaðnum sem auka trú þeirra á viðbragðsgetu kerfisins ef slík atvik koma upp.