Lið Belgíu og Englands mættust í leik um þriðja sæti heimsmeistaramótsins í knattspyrnu í Pétursborg í Rússlandi í dag. Leiknum lauk með sigri Belga sem skoruðu tvö mörk á móti engu frá Englendingum.
Bakvörðurinn Thomas Munier kom Belgum yfir strax á fjórðu mínútu eftir fyrirgjöf frá Nacer Chadli. Eden Hazard rak svo smiðshöggið þegar hann skoraði á 82. mínútu og verðlaunasæti í höfn hjá Belgum.
Þetta er besti árangur liðsins sem lenti árið 1986 í fjórða sæti þegar það tapaði 4-3 fyrir Frökkum í framlengdum bronsleik.
Enska liðið var aldrei líklegt í leiknum og virtist áhugalaust allan leikinn. Spennan hjá liðinu var og er helst í kringum framherjann Harry Kane, sem er enn markahæsti leikmaður mótsins. Leikmaður Belga, Romelu Lukaku, er með fjögur mörk en náði ekki að fjölga þeim í leik dagsins. Frönsku leikmennirnir Antoine Griezmann og Kylian Mbappe sem spila til úrslita á morgun eru með þrjú mörk og gætu tæknilega séð slegið Kane út.