Úrslitaleikur heimsmeistaramótsins í knattspyrnu í Rússlandi fer fram í dag klukkan 15 þegar Frakkar mæta liði Króata. Þegar þessi tvö lið mætast verður það i fyrsta skipti síðan 1930 að lið í úrslitum mæti ekki Brasilíu og Þýskalandi.
Franska liðið er reyndara en hið króatíska í þessum aðstæðum. Þetta er þriðji úrslitaleikurinn á heimsmeistaramóti sem liði spilar og Frakkar urðu heimsmeistarar á heimavelli árið 1998 en töpuðu fyrir Ítalíu í úrslitum 2006.
Þetta er hins vegar í fyrsta sinn sem Króatía kemst í úrslitaleikinn. Liðið hlýtur að vera þreytt. Það hefur farið löngu leiðina að þessum leik. Í 16-liða úrslitunum unnu þeir Danmörku í vítaspyrnukeppni, eins í 8-liða úrslitunum gegn Rússlandi og í undanúrslitunum unnu þeir England eftir framlengingu. Króatía hefur þannig farið í gegnum þrjár framlengingar í röð, samtals 360 mínútur af fótbolta síðan 1. júlí.
En Zlatko Dalic þjálfari liðsins hefur ekki áhyggjur. Krótaíska landsliðið spilar í dag sinn stærsta leik í sögunni og hann segir að leikmennirnir geri sér grein fyrir því. Þeir viti hvað er í húfi og hversu frábær stund þetta verður. Hver og einn leikmaður muni segja honum ef hann getur ekki lagt sig 100% fram. Eitthvað hefur verið um lítilsháttar meiðsli hjá leikmönnum Króatíu.
Liðin tvö hafa mæst fimm sinnum áður, tvö jafntefli hafa verið niðurstaða þeirra leikja og Frakkland unnið þrisvar.
Frakkar hafa unnið fimm leiki og gert eitt jafntefli gegn Danmörku í riðlakeppninni. Króatar hafa unnið alla leiki sína á mótinu, þar á meðal leik sinn í riðlakeppninni gegn Íslandi.
Frakkar eru af flestum taldir sigurstranglegri enda með feiknasterkt lið, með mikla breidd og mikinn aga. Sem dæmi má nefna að stórstjarnan Karim Benzema komst ekki í hópinn á þessu sinni.
Aga liðsins má vel sjá í spilamennskunni, þar sem það tekur lítið af áhættum heldur leggja upp fyrir einstaklingsframtak þegar slíkt hentar.
Ef að Didier Deschamps þjálfara liðsins tekst að stýra Frökkum til sigurs á eftir verður hann þriðji maðurinn í sögunni til þess að verða heimsmeistari sem leikmaður og þjálfari. Hinir tveir eru þeir Mario Zagallo og Franz Beckenbauer.
Síðustu tveir úrslitaleikir HM hafa farið 1-0 og kom sigurmark þeirra beggja í framlengingu. Spánn vann Holland 1-0 árið 2010 og Þýskaland vann Argentínu 1-0 árið 2014.