Þessa stundina stendur yfir leiðtogafundur Donalds Trump Bandaríkjaforseta og Vladimir Pútin forseta Rússlands í Helsinki í Finnlandi. Þetta er fyrsti opinberi fundur leiðtoganna tveggja, en Rússar hafa legið undir ásökunum fyrir að hlutast til í bandarískum stjórnmálum.
Fyrir tæpum tveimur tímum síðan lenti Pútín í Helsinki til fundar við Trump, um það bil klukkutíma á eftir áætlun. Til stendur að ræða samband ríkjanna tveggja sem Trump sagði aldrei hafa verið verra í Twitter-færslu sinni fyrr í morgun. Báðir leiðtogar virðast opnir fyrir vinsamlegri samskiptum ríkjanna sinna á milli, en að mati stjórnmálaskýrenda er fundurinn í sjálfu sér ákveðinn sigur fyrir stjórnvöld í Kreml þar sem með honum verði Rússland viðurkennt sem stórveldi sem ekki sé hægt að hunsa.
Our relationship with Russia has NEVER been worse thanks to many years of U.S. foolishness and stupidity and now, the Rigged Witch Hunt!
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) July 16, 2018
Erfiður fundur
Rússnesk stjórnvöld hafa nú þegar gefið til kynna að þau muni búast við erfiðum fundi. Meðal annars töldu þau að Trump muni þurfa að svara fyrir gagnrýni sína á lagningu rússneskra gasleiðsla til Þýskalands á leiðtogafundi NATO í síðustu viku, en einnig verði erfitt að finna sameiginlegan grundvöll í málefnum Sýrlands vegna mismunandi samskipta ríkjanna við Íran. „Auðvitað verður staða Sýrlands rædd milli tveggja forsetanna,“ sagði Dmitry Peskov, talsmaður Kremlar, í viðtali við rússneska fréttamiðilinn RT. „Við vitum öll hvað Washington finnst um Íran. En á sama tíma er Íran mikill samherji okkar í viðskiptum, samvinnu í efnahagsmálum og pólitískri orðræðu.“
Hins vegar vona Rússar að fundurinn verði fyrsta skref ríkjanna í að komast úr lægð í samskiptum sín á milli. „Rússland og Bandaríkin bera sérstaka ábyrgð á að viðhalda friði og stöðugleika í heiminum, sérstaklega í okkar tveimur löndum,“ bætti Peskov við.
Ákæran „gefin út til að skemma fyrir“
Síðastliðinn föstudag gaf embætti sérstaks saksóknara í Bandaríkjunum út ákæru á hendur 12 rússneskra G.R.U. leyniþjónustumanna vegna tölvuárásar á flokksþingi Demókrataflokksins og forsetaframboðs Hillary Clinton. Ákæran telur 29 blaðsíður og er hún ítarlegasta ásökun bandarískra stjórnvalda gegn yfirvöldum í Kreml vegna íhlutunar í forsetakosningarnar í Bandaríkjunum árið 2016. Meðal þess sem ákært er fyrir er aragrúi lítilla aðgerða sem áttu að ala á óreiðu í aðdraganda kosninganna.
Ákæran, sem er í ellefu liðum, telur að samsæri hafi átt sér stað milli G.R.U. starfsmanna og annarra, sem beindu spjótum sínum að Demókrataflokknum og framboði Clinton. Samkvæmt New York Times hafa nú nær allar bandarískar stofnanir sem komið hafa nálægt rannsókn á málinu haldið því fram að erlend öfl hafi hlutast til í síðustu forsetakosningunum. Þrátt fyrir það lýsir yfirmaður stofnananna og forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, enn yfir efasemdum sínum um að nokkuð grunsamlegt hafi átt sér stað.
Trump hefur áður haldið því fram að athygli Bandaríkjamanna á íhlutun Rússa í forsetakosningunum væri einungis flokkspólitískar ásakanir sem erfiðuðu honum að bæta samband sitt við Pútín. Í kjölfar ákærunnar hélt utanríkisráðuneyti Rússlands því fram að hún væri einungis gefin út á þessum tíma til að skemma fyrir leiðtogafundinum.
Sama stofnun í Skripal-málinu
Íhlutun rússnesku leyniþjónustunnar G.R.U. á Vesturlöndum gæti náð til fleiri landa en Bandaríkjanna, en bresk yfirvöld telja hana líka bera ábyrgð á taugaeitursárásina í Bretlandi gegn fyrrum rússnesks njósnara síðastliðinn mars.
Breskir rannsóknarmenn trúa því að árásin, sem var gegn fyrrum njósnaranum Sergei Skripal og dóttur hans Yuliu, hafi að öllum líkindum verið framkvæmd af núverandi eða fyrrverandi starfsmönnum G.R.U. Þetta hefur New York Times eftir þremur opinberum starfsmönnum sem tengjast rannsókn Breta á árásinni.
Að sögn New York Times eru bresk yfirvöld nálægt því að bera kennsl á einstaklingana sem réðust á Sergei og Yuliu, en hafa þó ekki útilokað möguleikann að önnur rússnesk leyniþjónusta eða einkastofa standi að baki aðgerðinni.