Menntaskólar í Danmörku eru í baráttu við áfengisnotkun nemenda sinna, en rektorar skólanna eru ánægðir með nýjar reglur sem ætlaðar eru til að „stöðva“ drykkjumenninguna. Reglurnar fela meðal annars í sér bann á sölu á sterku áfengi og takmörkun á áfengiskaupum skólans. Þetta kemur fram í frétt á vef danska ríkisútvarpsins.
Bara bjór á böllum
Nemendur danskra menntaskóla eru að jafnaði 16-19 ára gamlir, en hefð hefur verið fyrir því að áfengi sé haft við hönd í fjölmörgum af skipulögðum viðburðum skólanna. Í fyrra settu menntaskólar á Fjóni, Sjálandi og Jótlandi hins vegar upp sameiginlegar áfengisreglur í fyrra þar sem mælt var með því að takmarka sölu áfengis á hátíðum skólanna. Reglurnar eru eftirfarandi:
- Áfengi er alla jafna ekki leyft í busaferðum og öðrum lærdómsferðum. Þó gæti neysla þess verið leyfð með samþykki og þátttöku kennara við kvöldverð á síðasta degi.
- Í mesta lagi mega menntaskólarnir halda fimm skólaböll á hverju ári. Fyrir þessar hátíðir má áfengi einungis vera keypt í takmörkuðu magni.
- Ekki má gefa nemendum drykki með meira en fimm prósenta áfengismagni á böllum skólans.
- Nemendur sem virðast hafa drukkið of mikið við komu á böllin verða sendir heim.
- Einstaka skólar munu láta nemendur blása í áfengismæli við innganginn á böllunum. Hafi nemandi þar meira en 0,5 prómilla áfengismagn í líkamanum sínum verði hann sendur heim.
Auglýsing
Færri árekstrar eftir innleiðingu reglnanna
Í viðtali við danska ríkisútvarpið segja rektorar menntaskólanna við Hróarskeldu og Rungsted að reglurnar hafi leitt til mikilla breytinga á skólaskemmtununum sjálfum.
„Við og aðrir skólar upplifðum að áfengisneysla væri mjög mikil, sérstaklega á böllunum. Við getum séð að böllin hafa breyst (eftir innleiðingu reglnanna). Þau hafa orðið huggulegri á þann hátt að það er meira talað og færri árekstrar sem hafa neikvæð áhrif á félagslífið,“ segir Ruth Kirkegaard, rektor við menntaskólann í Rungsted.
Þess utan vill Ruth meina að reglurnar hafi hjálpað til við að fjarlægja félagslegan þrýsting við að byrja að drekka áfengi, sem margir unglingar finni fyrir. „Með dönsku drykkjumenningunni gætu sumum fundist að þeir þurfi að dreka áfengi þar sem aðrir gera það. Við skynjum það að það hafi orðið léttara fyrir þá sem frábiðja sér áfengi að vera með,“ segir hún.
Foreldrar þurfi að vera með
Þrátt fyrir tilraunir skólanna til að bjóða nemendum upp á unglingahátíðir undir eftirliti fullorðinna í stað óskipulagðra samkoma segja rektorar þeirra að þátttaka foreldranna sé mikilvæg. „Við getum ekki gert upp drykkjumenningu heils lands alein. Við þurfum að hafa foreldrana með, og til allrar hamingju höfum við mikinn stuðning frá foreldrahópnum, þar sem þau hafa stjórn á fyrirpartíum og geta sett áfengisneyslunni einhver takmörk,“ segir Ruth Kirkegaard.