Á þriðja tug starfsmanna hefur verið sagt upp hjá Icelandair. Vísir greinir frá og fékk staðfestingu frá Guðjóni Arngrímssyni upplýsingafulltrúa félagsins.
Uppsagnirnar munu ná til starfsfólks á ýmsum sviðum og deilum bæði í Reykjavík og Keflavík og eru liður í hagræðingaraðgerðum sem félagið hefur gripið til að undanförnu eftir mikla erfiðleika í kjölfar hækkandi olíuverðs og samkeppni.
Eins og fjallað hefur verið ítarlega um á vef Kjarnans á undanförnum vikum, þá hefur rekstrarumhverfi flugfélaga versnað nokkuð á undanförnum misserum. WOW Air vinnu enn að því að styrkja fjárhag félagsins, til að tryggja reksturinn til framtíðar, og afkoma Icelandair hefur farið versnandi.
Olíuverð hefur farið hækkandi en verð á hráolíutunninni er nú komið upp undir 80 Bandaríkjadali, og hefur það hækkað um tíu prósent á tveimur vikum. Spár gera ráð fyrir áframhaldandi hækkunum, samkvæmt greiningum sem Wall Street Journal hefur að undanförnu vitnað til í umfjöllun sinni.
Afkomuspá félagsins gerir ráð fyrir því EBITDA rekstrarhagnaður Icelandair verði 80 til 100 milljónir Bandaríkjadala á þessu ári, eða sem nemur 8,5 til 11 milljörðum króna. Björgólfur Jóhannsson sagði starfi sínu sem forstjóri laus, 27. ágúst síðastliðinn, en í tilkynningu sagði hann að félagið stæði fjárhagslega sterkt á þessum tímapunkti, og tilbúið að takast á við sveiflukennt umhverfi flugiðnaðarins.
Auk þessara uppsagna hefur flugfreyjum og flugþjónum Icelandair í hlutastafi verið velja á milli þess að fara í fulla vinnu frá og með 1. janúar næstkomandi ellegar missa vinnuna. Töluverð reiði er meðal þess hóps sem þessi ákvörðun nær til hjá félaginu.
Í tölvupósti þar sem flugliðum var tilkynnt um þessar breytingar félagsins sagði að breytt staða Icelandair kalli á breytingar. „Nú er útlit fyrir að fyrirtækið verði ekki rekið með hagnaði árið 2018 og er það grafalvarleg staða, enda byggja fyrirtæki framtíð sína á að geta fjárfest í uppbyggingu og þróun til að vaxa og dafna,“ segir í tölvupóstinum.
Í ágúst síðastliðnum var einnig upplýst um að að Icelandair hygðist að færa hluta bak- og bókhaldsvinnslu fyrirtækisins til eistnesks dótturfélags.