Nauðsynlegt er að stjórnvöld auki áherslu á menntun heilbrigðisstarfsmanna en ekki síður að halda menntuðum heilbrigðisstarfsmönnum í störfum. Ef stefnt er að breyta læknanáminu og fjölga nemendum úr 48 í 60 á næstu árum þá þarf heilbrigðiskerfið að eiga möguleika á að mæta þeirra fjölgun. Þetta segir Kristján Erlendsson, læknir og kennslustjóri læknadeilar háskóla Íslands, í grein í nýjasta tölublaði Læknablaðsins.
Hann skorar á stjórnvöld að fara í átak í að byggja upp menntavæna innviði í heilbrigðiskerfinu og vísar hann jafnframt til skýrslu frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnun sem greinir því að 18 milljónir heilbrigðisstarfsmanna muni vanta á heimsvísu árið 2030.
Kristján bendir enn fremur á í grein sinni að samkvæmt Mckinsey skýrslunni frá árinu 2016, sem gerð var að beiðni fjárlaganefndar Alþingis, sé íslenska heilbrigðiskerfið nú þegar alvarlega undirmannað og ef ekkert verði að gert þá muni það bitna á þróun og gæðum heilbrigðisþjónustunnar. Þess megi nú þegar sjá merki.
Ísland langt á eftir Norðurlöndunum
Í grein Kristjáns kemur fram að fyrir menntun læknanema þurfi góða samvinnu við heilbrigðisstofnanir fyrir klíníska menntun, en þar hafi Ísland setið eftir í samanburði við hin Norðurlöndin sem og Bandaríkin og Bretland. Í dag sé fjármagn til menntunar og vísinda á Landspítalanum undir 1 prósent af heildarkostnað spítalans. Í Vísindastefnu spítalans frá 2007 var stefnt að sú tala væri 3 prósent sem er þó vel undir stefnu Norðurlandanna í þessu málum en þar var talan 6 prósent árið 2007. Kristján bendir á að lítið fjármagn og aukið þjónustuálagi sem og fjölgun nemenda hljóti að fylgja hnignun í menntun og vísindum.
Fram kemur í umsögn Landspítalans um þingsályktunartillögu um fjármálaætlun 2019 til 2023 frá 3. maí síðastliðnum að Landspítalinn óski eftir talsvert meira fjármagni en þingsályktunartillagan geri ráð fyrir. Í umsögninni kemur meðal annars fram ósk um fjármagn til að viðhalda og byggja upp vísindastarf og til að sinna fjölgun nemenda í heilbrigðisvísindum. En fram kemur að mat Landspítalans á uppsafnaðri viðbótarfjárþörf til að sinna þeim tveimur verkefnum til næstu þurfi 893 milljónum króna árið 2018 en alls 12.788 milljónir uppsafnað til að standa undir 5 ára áætlun.
Hlutfall fjármagns til mennta- og vísindastarfs mun ekki hækka
Samkvæmt nýja fjárlagafrumvarpinu verða framlög ríkisins til reksturs Landspítalans á næsta ári 71,3 milljarðar króna eða 65,4 milljarðar að teknu tilliti til sértekjuáætlunar, samanborið við 61,8 milljarða að teknu tilliti til sértekna árið 2018.
Í samtali við Kjarninn segir Anna Sigrún Baldursdóttur, aðstoðarmaður Páll Matthíassonar forstjóra Landspítalans, að ekki sé gert ráð fyrir auknu fjármagni til mennta- og vísindastarfs innan Landspítalans í nýja fjárlagafrumvarpinu. Landspítalinn hafi ítrekað á hverju ári óskað eftir auknu fjármagni til mennta- og vísindastarfs og muni gera það áfram. Hún tekur fram að Landspítalinn sé nú þegar búin að koma með athugasemdir við frumvarpið. Hlutfall fjármagns til mennta- og vísinda innan Landspítalans muni því ekki hækka úr undir 1 prósent á næsta ári þó fjölgun hjúkrunarfræðinema sem og læknanema liggi fyrir.