Þriðju hverju sekúndu árið um kring er stúlka undir 18 ára aldri gift, oftast sér eldri karli. Ef heldur sem horfir verða 134 milljónir stúlkna giftar á árabilinu 2018 til 2030. Árið 2030 eitt og sér munu tíu milljónir stúlkna giftast og ríflega tvær milljónir þeirra munu giftast áður en þær hafa náð 15 ára aldri.
Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Save the Children, Working Together to End Child Marriage, og greint frá í tilkynningu frá Barnaheill - Save the Children á Íslandi í dag. Alþjóðadagur stúlkubarna er á morgun, 11. október, og hafa samtökin helgað daginn baráttunni gegn barnahjónaböndum.
Í skýrslunni segir að ef ekkert verði að gert muni barnahjónabönd rýra lífsgæði milljóna stúlkna, hefta möguleika þeirra til menntunar og að lifa til fulls. Þær séu líklegri til að deyja af orsökum sem hægt er að fyrirbyggja.
Menntun stúlkna lykilatriðið til árangurs
Enn fremur kemur fram að hafi stúlkur frelsi til að njóta bernskunnar, mennta sig og njóta verndar hafi það afar jákvæð áhrif á lífshlaup þeirra. Ef hjónabandi og barneignum stúlkna er frestað fram yfir 18 ára aldur séu meiri líkur á að þær haldi áfram skólagöngu og ljúki menntun. Í því felist mikil valdefling og stúlkurnar séu líklegri til að vera virkar í samfélaginu, verða efnahagslega sjálfstæðar og leggja sitt af mörkum til efnahagslífsins.
„Stjórnvöld í þeim löndum þar sem barnabrúðkaup eru hvað algengust verða að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að þróa og virkja aðgerðaáætlanir á öllum sviðum til að stöðva vandann. Það felur í sér skipulag aðgerða þvert á ráðuneyti og meðal hagsmunaaðila svo hægt sé að stilla saman strengi og ná árangri.
Menntun stúlkna er lykilatriði til að ná árangri. Samkvæmt nýrri greiningu Barnaheilla – Save the Children mætti afstýra 51 milljón barnahjónabanda til ársins 2030 með því að tryggja stúlkum grunnmenntun upp að 16 ára aldri. En til þess að það geti orðið þarf að leggja mun ríkari áherslu á að uppræta kynjaójafnrétti og aðrar undirliggjandi orsakir fyrir brottfalli stúlkna úr skóla,“ segir í skýrslunni.