Samfylkingin tapar mestu fylgi allra borgarstjórnarflokkanna samkvæmt könnun sem Fréttablaðið stóð fyrir. Aðrir flokkar í meirihluta í borgarstjórn bæta hins vegar við sig fylgi eða halda í horfinu. Sjálfstæðisflokkurinn mælist, líkt og í síðustu kosningum, stærstur flokka.
Samkvæmt könnuninni myndu um þrír af hverjum tíu, sem tóku afstöðu, greiða Sjálfstæðisflokknum atkvæði sitt en það er svipað og kjörfylgi flokksins í vor. Samfylkingin mælist með 21 prósent en hlaut tæp 26 prósent í kosningunum. Píratar bæta nokkru við sig og fengju 12,7 prósent atkvæða samanborið við tæp 8 prósent í vor. Viðreisn mælist með rúm 9 prósent nú samanborið við rúm 8 í vor. Vinstri græn mælast með ríflega 8 prósent og bætir því nokkru við sig en flokkurinn fékk 4,6 prósent atkvæða í borgarstjórnarkosningunum. Ríflega þriðjungur svarenda var aftur á móti óviss um hvaða flokk þeir myndu kjósa. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag.
Fjöldi borgarfulltrúa minnihlutaflokkanna breytist því ekki miðað við kosningarnar í vor. Meirihlutinn myndi halda velli með þrettán fulltrúa en vera öðruvísi samansettur. Samfylkingin myndi tapa tveimur mönnum en Píratar og Vinstri græn bæta við sig einum manni hvor flokkur. Borgarstjórnarflokkur Viðreisnar myndi áfram telja tvo menn.
Ábyrgðin er borgarstjórans
Samtímis því að kanna fylgi flokkanna voru þátttakendur einnig spurðir hver þeim þætti að ætti að axla ábyrgð á framúrkeyrslu við endurbætur og viðbyggingar braggans í Nauthólsvík. Af þeim sem tóku afstöðu töldu flestir, um þriðjungur svarenda, að ábyrgðin væri borgarstjórans.
Rúmlega fjórðungur taldi ábyrgðina vera meirihluta borgarstjórnar og álíka margir, 26,2 prósent, svöruðu því að embættismenn ættu að axla ábyrgð. Um níu prósent telja að hönnuðir og arkitektar beri ábyrgðina á framúrkeyrslunni og rúm fimm prósent telja hana annarra. Þetta eru niðurstöður könnunar sem Zenter rannsóknir unnu fyrir Fréttablaðið.
Umræddur braggi í Nauthólsvík er örugglega orðin frægasti og dýrasti braggi í sögu Íslands. Kostnaður við endurbætur og viðbyggingar hans fóru langt fram úr áætlun. Kostnaður við framkvæmdirnar nemur nú rúmlega 400 milljónum króna en upphaflega var gert ráð fyrir að hann yrði 158 milljónir. Braginn hefur valdið miklu fjaðrafoki en flestir eru sammála um að framúrkeyrslan sé hin alvarlegasta en ekki eru allir sammála um hver á að sæta ábyrgð vegna málsins. Samkvæmt könnun Fréttablaðsins eru skiptar skoðanir á milli kynjanna en karlar eru líklegri til að setja Braggamálið á reikning borgarstjóra, 36 prósent á móti 29 prósentum kvenna. Konur benda frekar á meirihlutann eða 32 prósent samanborið við 22 prósent karla. Áþekkt hlutfall kynjanna, um fjórðungur, taldi að embættismenn ættu að sæta ábyrgð.
Yngstu kjósendurnir voru ólíklegastir til að benda á Dag B. Þeir sem eldri eru voru frekar á því að ábyrgðin væri Dags eða tæplega helmingur svarenda 55 ára og eldri. Sami hópur var einnig ólíklegastur til að benda á meirihlutann í borginni. Sé litið til yngstu kjósenda borgarinnar voru sextán prósent á því að borgarstjóri ætti að sæta ábyrgð en 41 prósent taldi að skella ætti skuldinni á embættismenn.