Sjómannafélag Eyjafjarðar og Sjómannafélagið Jötunn í Vestmannaeyjum hafa ákveðið að draga sig út úr samningaviðræðum um sameiningu við þrjú önnur félög sjómanna, Sjómannafélagi Íslands, Sjómanna- og vélstjórafélagi Grindavíkur og Sjómannafélagi Hafnarfjarðar. Ástæðan er ásakanir sem fram hafa komið á stjórnendur Sjómannafélags Íslands. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag.
Stjórn Sjómannafélags Eyjafjarðar kom saman til fundar í gær til að fara yfir stöðuna í viðræðum þessara fimm sjómannafélaga sem verið hafa í gangi um nokkurt skeið. Á stjórnarfundinum var samþykkt eftirfarandi yfirlýsing sem undirrituð er af formanni SE og formanni Jötuns um að ekki verði lengra farið í málinu og dragi því þessi félög sig út úr þessum viðræðum. Yfirlýsingin var birt á heimasíðu félaganna tveggja:
„Í fréttum undanfarna daga hafa komið fram mjög alvarlegar ásakanir á hendur stjórnendum Sjómannafélags Íslands um óheiðarlega framkomu og falsanir á fundargerðarbók sjómannafélagsins. Ásakanir þessar hafa komið fram í tengslum við fyrirhugað mótframboð til stjórnar félagsins í tengslum við aðalfund þess sem fram fer á milli jóla og nýárs. Þessar ásakanir telja stjórnendur ofangreindra félaga svo alvarlegar að við því verði að bregðast. Þar sem ofangreind félög hafa verið í sameiningarviðræðum við Sjómannafélag Íslands, Sjómanna- og vélstjórafélag Grindavíkur og Sjómannafélag Hafnarfjarðar er það mat stjórnenda þessara félaga að ekki verði lengra farið og draga sig því út úr þessum sameiningarviðræðum félaganna."
Harmar ásakanirnar
Sjómannafélag Íslands sendi einnig frá sér yfirlýsingu í gær þar sem segir að lagabreytingar sem bornar hafi verið upp á aðalfundi 28. desember í fyrra hafi verið samþykktar með öllum greiddum atkvæðum, þar á meðal um að kjörgengir væru þeir félagar sem greitt hefðu í félagið sl. þrjú ár. Í yfirlýsingunni segir að félagið hafi legið undir ámæli frá Heiðveigu Maríu Einarsdóttur sjómanni sem hefur lýst áhuga á því að bjóða sig fram til formanns. Hún hafi sakað forystu Sjómannafélagsins um að falsa lagabreytingu um kjörgengi til stjórnar til þess að koma í veg fyrir framboð sitt. Stjórn Sjómannafélags Íslands harmar þessar ásakanir í garð félagsins og segir að með ásökum sínum vegi Heiðveig María að æru félagsins og allra þeirra sem koma að stjórn og rekstri félagsins.
Heiðveig María Einarsdóttir, sjómaður og viðskiptalögfræðingur, lýsti því yfir á Facebook-síðu sinni fyrir rúmum tveimur vikum að hún hafi ákveðið að bjóða sig fram til formanns Sjómannafélags Íslands. Hún er fyrst kvenna til að bjóða sig fram til formanns Sjómannafélags Íslands. Áður hafði Heiðveig María gagnrýnt forystu sjómanna í fjölmiðlum, sem og nýtt frumvarp um breytingar á veiðigjöldum.
Heiðveig María svarar Sjómannafélagi Íslands
Í kjölfar ofangreindar yfirlýsingarinnar sem Sjómannafélag Íslands sendi frá sér í gær þá birti framboðs Facebook-síða Heiðveigu Maríu stöðuuppfærslu um málið þar sem hún svarar yfirlýsingu sjómannafélag Íslands:
„Í yfirlýsingu sem stjórn Sjómannafélags Íslands hefur sent frá sér til fjölmiðla koma þeir ekki með nokkrar skýringar á því sem ég hef bent á heldur kýs stjórnin að láta sem ég sé að skaða félagið, bendir á að ég sé ekki samkvæm sjálfri mér í málflutningi mínum og sakar mig um órökstuddar ásakanir á hendur stjórninni. Ekkert af þessu er rétt. Stjórnin ræðir ekki efnislega það sem ég hef haldið fram þrátt fyrir að gögn um lagabreytingarnar á síðu félagsins og ekki voru samþykkt á aðalfundi hafi fylgt pistlum mínum. Ég hefði talið eðlilegt á þessu stigi málsins að stjórnin hefði sent frá sér gögn sem hrekja málflutning minn ef hann væri rangur. Þar sem stjórnin áréttar að breytingar á 16. grein laganna hafi verið löglega samþykktar af aðalfundi á seinasta ári þá bendi ég á að ég hef ekki sagt að hér sé um fölsun að ræða heldur að það væri undarlegt að sú grein sem um ræðir sé með öðru letri í fundargerðarbókinni og að ég hafi ekki sjálf fengið að sjá fundargerðarbókina heldur bara fengið sendar ljósmyndir af henni. Þá er það jafnframt stórundarlegt að starfsmenn og formaður félagsins hafi ekki séð tilefni til þess að kynna svo veigamikla lagabreytingu fyrir félagsmönnum með því að birta uppfærð lög á heimasíðu félagsins strax eftir meinta lagabreytingu.“
Heiðveig María birti síðan á sinni eigin Facebook-síðu í gærkvöldi stöðufærslu þar sem hún fagnar ákvörðun Sjómannafélag Eyjafjarðar og Sjómannafélagið Jötunn um að draga sig úr viðræðum; .„Það að formenn þessara félaga stígi til baka og slíti viðræðum í núverandi mynd á meðan stjórn Sjómannafélags Íslands getur ekki svarað fyrir þær ásakanir og þau gögn sem lögð hafa verið fram veitir ákveðna von um að einhversstaðar séu hlutirnir í lagi“
Í yfirlýsingu sem stjórn Sjómannafélags Íslands hefur sent frá sér til fjölmiðla koma þeir ekki með nokkrar skýringar á...
Posted by Fulla ferð áfram B-listi Heiðveigar Maríu #fullaferð on Wednesday, October 17, 2018