Í kringum 300 fulltrúar frá 48 stéttarfélögum munu kjósa nýja forystumenn Alþýðusamband Íslands á 43. þingi ASÍ í dag. Á þinginu verður mótuð stefna sambandsins til næstu tveggja ára en þingið er haldið annað hvert ár. Stefnt er að ræða fimm málefni sérstaklega, tekjuskipting og jöfnuður, jafnvægi atvinnuþátttöku og einkalífs, tækniþróun og skipulag vinnunnar, heilbrigðisþjónusta og velferðarkerfið og loks húsnæðismál. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag.
Drífa Snædal, framkvæmdastjóri SGS, og Sverrir Már Albertsson, framkvæmdarstjóri og stjórnarmaður Afls, eru í framboði til forseta ASÍ. Kristján Þórður Snæbjörnsson, formaður RSÍ, Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, og Vilhjálmur Birgisson, formaður VLFA, bjóða sig fram í embætti varaforseta.
Þetta verður ákveðið tímamóta þing ASÍ, að mati Sumarliði Ísleifssonar, lektors við sagnfræði og heimspekideild Háskóla Íslands. Sumarliði hefur skrifað mikið um sögu ASÍ og þekkir því vel sögu verkalýðshreyfingarinnar. Hann segir í samtalið við Morgunblaðið að svo miklar breytingar á forystu ASÍ í einu hafi ekki gerst lengi. Hann segir ástandið í verkalýðshreyfingunni nú minna að sumu leyti á stöðuna um og eftir miðja 20. öldina. Greinilegt sé að tónninn sé harðari nú en hann hafi verið mörg undanfarin ár. Svo virðist sem andstaðan við ríkjandi öfl sé að taka yfir..
Félagslegu þáttunum ekki verið sinnt nóg
Sumarliði segir gagnrýnin og róttækan minnihluta sambandsins vera taka yfir. Má þar nefnda fulltrúa Verkalýðsfélags Akraness, Framsýnar á Húsavík, VR og nú forysta Eflingar. Hann telur að ástæðan fyrir því að andstaðan við ríkjandi öfl innan verkalýðshreyfingarinnar virðist vera að ná í gegn nú sé fyrst og fremst að félagslegu þáttunum hafi ekki verið sinnt nægilega vel undanfarin ár.
Gert hafi verið átak í húsnæðismálum en það hafi komið of seint og verið of lítið. „Fólki er misboðið og það sættir sig ekki við þetta lengur,“ segir Sumarliði. „Svo eru það launakröfurnar. Áherslurnar nú eru greinilega á að það þurfi að hækka laun hinna lægstlaunuðu sérstaklega. Um það er líklega nokkuð mikil samstaða en gæti verið meiningarmunur innan hreyfingarinnar um það hversu langt skuli ganga.“
Framboð til forseta
Frambjóðendurnir tveir til forsta ASÍ, Drífa Snædal og Sverrir Mar Albertsson, sögðu í Kastljósi í gær að þau eru sammála um mikilvægi þess að safna lið og skipa í fylkingar. Eins sé það mikilvægt að endurvinna traust Alþýðusambandsins sem hafi legið undir ámæli síðustu ár. „Alþýðusambandið er breið fylking, úr öllum stjórnmálaflokkum og mörg lífsviðhorf og annað slíkt. Það er mikilvægt að það sé einhver sameiginlegur tónn hjá okkur, að menn finni sinn sannleika, menn finni eignarhald á þeirri kröfugerð sem verið er að gera.“ sagði Sverrir Mar
Kröfugerðar Starfsgreinasambandsins og VR hafa vakið töluverða athygli og verið gagnrýndar af andstöðunni fyrir að vera óraunhæfar. Drífa segir kröfurnar ábyrgar og unnar út frá kostnaðarmati og segir „Ég segi að það er frekar óábyrgt af verkalýðshreyfingu að fara fram með kröfur sem duga ekki fyrir framfærslu. Þar liggur okkar ábyrgð.“
Drífa segir að eðlilegt að kraumandi ólga sé á vinnumarkaði og í verkalýðshreyfingunni því þær kjarabætur sem ASÍ hafi samið um hafi ekki skilað sér í umslagið. „Það er alveg ljóst að það eru miklar væntingar og háar kröfur og það er gott, þetta verður vandasamt verkefni og spjótunum verður mjög mikið beint að stjórnvöldum því að ef að þau hefðu staðið við sitt að þá værum við í annarri stöðu í dag, “ segir Drífa.