Drífa Snædal var kjörin nýr forseti ASÍ á 43. þingi sambandsins í dag, fyrst kvenna. Tveir einstaklingar buðu sig fram til embættisins, þau Drífa Snædal framkvæmdastjóri SGS og Sverrir Mar Albertsson framkvæmdastjóri og stjórnarmaður Afls.
Drífa hlaut 192 atkvæði eða 65,8 prósent en Sverrir Mar fékk 100 atkvæði eða 34,2 prósent. Atkvæði greiddu 293 og var eitt atkvæði ógilt.
Drífa er 45 ára viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands auk þess að vera með meistarapróf í vinnumarkaðsfræðum og vinnurétti frá Háskólanum í Lundi. Hún hefur starfað sem framkvæmdastjóri Starfsgreinasambands Íslands frá árinu 2012 en áður var hún framkvæmdastjóri Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs og Samtaka um Kvennaathvarf. Hún er fyrsta konan sem er kjörin í embætti forseta ASÍ í 102 ára sögu Alþýðusambands Íslands.
Í kringum 300 fulltrúar frá 48 stéttarfélögum kjósa nýja forystumenn Alþýðusamband Íslands í dag. Samkvæmt upplýsingum frá ASÍ gæti niðurstaða í kosningum til varaforseta ASÍ dregist fram yfir hádegi í dag. Til varforseta hafa þrír tilkynnt framboð, þeir Kristján Þórður Snæbjarnarson formaður Rafiðnaðarsambands Íslands, Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR og Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness.
Gylfi Arnbjörnsson, fráfarandi forseti Alþýðusambands Íslands, tilkynnti í júní síðastliðnum á miðstjórnarfundi sambandsins að hann hygðist ekki bjóða sig fram til endurkjörs.
Á þinginu var mótuð stefna sambandsins til næstu tveggja ára en þingið er haldið annað hvert ár. Stefnt var á að ræða fimm málefni sérstaklega, tekjuskipting og jöfnuður, jafnvægi atvinnuþátttöku og einkalífs, tækniþróun og skipulag vinnunnar, heilbrigðisþjónusta og velferðarkerfið og loks húsnæðismál.