Á næstu árum munu íslensk stjórnvöld leggjast í stórtækar aðgerðir gegn plastnotkun á Íslandi ef ný tillaga að aðgerðaráætlun í plastmálefnum, sem starfshópur skilaði umhverfis- og auðlindaráðherra í dag, gengur eftir. Í aðgerðaráætluninni má finna átján aðgerðir um hvernig megi draga úr notkun plasts, bæta endurvinnslu og takast á við plastmengun í hafi. Meðal annars er lagt til að stjórnvöld ráðist í markvissa vitundarvakningu almennings um ofnotkun á plastvörum, ásamt því er lagt til að plast burðarpokar verði bannaðar í verslunum árið 2021 og að flokkun úrgangs verði samræmd á landsvísu.
„Tillögurnar sem ég fékk í dag eru blanda af hagrænum hvötum, banni, fræðslu og nýsköpun. Plastfjöllin okkar hækka stöðugt og ef fram heldur sem horfir verður árið 2050 meira plast í hafinu en fiskar. Við verðum að breyta þessu og þora að taka stór skref. Hér í dag hafa einmitt mikilvæg fyrstu skref verið stigin.“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra.
Plastmengun á Íslandi
Hefðbundið plast brotnar ekki niður með lífrænum hætti, heldur molnar niður í smærri einingar á hundruðum eða þúsundum ára. Allir burðarplastpokar sem jarðarbúi hefur notað á ævinni eru því enn þá til á einhverju formi. Örplast af þessu tagi í hafinu er orðið að eitt af stærstu vandamálum heimsins.
Notkun plastumbúða á Íslandi jókst á árunum 2014 til 2016 úr 13.660 tonnum í 15.029 tonn, eða um 10 prósent. Plastumbúðir sem skiluðu sér til endurvinnslu voru 4.478 tonn árið 2014 og 6.411 tonn tveimur árum síðar. Plastumbúðir sem skiluðu sér til brennslu með orkunýtingu voru 423 tonn árið 2014 og 666 tonn árið 2016. Plastúrgangur, þ.e. annar en plastumbúðir, sem skilaði sér til endurvinnslu voru 193 tonn árið 2014 og 666 tonn tveimur árum síðar. Þetta kom fram í svari Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Olgu Margréti Cilia um mengun af völdum plastnotkunar í febrúar síðastliðnum.
Í sáttmála núverandi ríkisstjórnar er kveðið á um átak gegn plasti og að hreinsa plast úr umhverfinu og skipan starfshóps aðgerðaráætluninnar var liður í að fylgja því eftir. Þá hefur mhverfisráðherra lagt ítrekað lagt áherslu á að plastmál séu eitt af hans forgangsmálum.
Aðgerðaráætlun gegn plastnotkun
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, skipaði starfshóp með 13 sætum í júlí síðastliðnum með það að markmiði að búa til tillögu að aðgerðaáætlun í plastmálefnum. Í starfshópnum voru fullrúar frá atvinnulífinu, sveitarfélaga, umhverfisverndarsamtaka, félagasamtaka, opinberra stofnana, Alþingis, ráðuneyta og fleiri.
Meðal þeirra var Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri Grænna, fyrir hönd stjórnarflokkana og Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkarinnar, fyrir hönd stjórnarandstöðu flokkana. Hópnum var falið af ráðherra að taka til skoðunar hvaða rannsóknir og vöktun varðandi plast þurfi að ráðast í, koma með tillögur um þær stjórnvaldsaðgerðir sem æskilegt væri að koma í framkvæmd og koma með tillögur um hvernig best verði stuðlað að nýsköpun í vörum sem koma í stað plastnotkunar.
Tillagan að aðgerðaráætluninni snýr að aðgerðum um hvernig draga megi úr notkun plasts, bæta endurvinnslu þess og takast á plastmengun í hafi. Í aðgerðaráætlunni eru 18 aðgerðir en aðgerðunum er skipt í þrennt, fyrsti flokkurinn er „Dregið úr notkun plasts“ sem inniheldur átta aðgerðir, „Bætt endurvinnsla“ þar sem fjórar aðgerðir eru tilgreindar og síðan „Plast í hafi“ með sex aðgerðum. Starfshópurinn leggur áherslu á að um tillögur sé að ræða en nánari útfærsla þeirra krefjist vandaðs undirbúnings og gott samráðsferli sé hluti þess. Ekki er búið að kostnaðarmeta meirihluta aðgerðanna en mismunandi er hver ber kostnaðinn af aðgerðunum Tillögurnar fara nú í opið samráð og geta öll þau sem vilja gert athugasemdir við þær.
Burðarpokar bannaðar 2021
Meðal aðgerðanna er að þriggja þrepa áætlun um burðarpoka úr plasti sem endar með því að 1. janúar 2021 verði óheimilt að selja eða afhenda plastpoka í verslunum. Mikil vitundarvakning hefur verið um óþarfi og skaðsemi plastpoka undanfarin ár, skorað hefur verið á stjórnvöld að banna plastpoka í gegnum undirskriftasafnanir og fleira. Nýlega kannaði MMR viðhorf Íslendinga gagnvart banni á plastpokum en mikill meirihluti var hlynntur banns á plastpokum.
Önnur aðgerð leggur til að hafist verði handa við að innleiða tilskipun ESB um að draga úr umhverfisáhrifum plasts sem fyrst eftir að slík tilskipun hefur verið samþykkt í Evrópu en áætlað er að það verði á næsta ári. Lagt er til að banni við plastdiskum, plasthnífapörum, plaströrum og öðru einnota plasti, sem kveðið er á um í drögum að tilskipuninni, verði flýtt og það innleitt hér á landi frá og með 1. janúar 2020.
Skylda sveitarfélög og rekstraraðila að flokka úrgang
Í skýrslunni er ábyrgð stjórnvalda viðurkennd með ýmsum aðgerðum sem snýr að stjórnvöldum. Ein aðgerðin snýr að því að stjórnvöld myndu sjálf ganga fram góðu fordæmi og stuðli að aukinni sjálfi sjálfbærni í rekstri og bættri umhverfisvitund. Í dag taka 62 stofnanir þátt í verkefninu Grænum skrefum í ríkisrekstri en í áætluninni er lagt til að allar stofnanir verði skyldugar til að taka þátt. Í Grænum skrefum er mikil áhersla lögð á að draga úr sóun og auka flokkun úrgangs. Meðal aðgerða sem stofnanir þurfa að innleiða er að kaupa ekki inn einnota umbúðir s.s. drykkjarglös og borðbúnað, að stofnanir verði plastpokalausar og að ekki séu einnota umbúðir á viðburðum og fundum. Kostnaðurinn við þessa aðgerð er talin 12,5 milljónir
Önnur aðgerðartillaga snýr að því að lagt er til að umhverfis- og auðlindaráðherra leggi fram lagafrumvarp ekki seinna en september 2019 til þess að skylda sveitarfélög og rekstraraðila til að flokka úrgang, a.m.k. lífrænan úrgang, pappír, plast, málma og gler og koma til endurnýtingar. Ósamræmi í flokkun úrgangs milli sveitarfélaga gerir almenningi erfiðara fyrir við að flokka rusl. Ekki liggur þó fyrir hvaða fjárhagsleg áhrif þessi aðgerð mun hafa á sveitarfélög.
Auglýsingaherferð gegn ofnotkun plasts
Samkvæmt aðgerðaáætluninni þá eru breytingar á neyslu og hegðun almennings lykilatriði við að ná árangri í ofnotkun á einnota plasti. Ein aðgerðin er því víðtæk auglýsingaherferð um ofnotkun almennings á plastvörum. Samkvæmt áætluninni er markmiðið að auka vitund fólks um ofnotkun á einnota plastvörum með menntun og fræðslu. Hvetja fólk til að minnka notkun á plasti, flokka og fleira. Herferðin væri birt í fjölmiðlum og samfélagsmiðlum bæði á ensku og íslensku. Samhliða þessu er gert ráð fyrir að útbúið verði kennsluefni fyrir öll skólastig um plast og áhrif þess. Kostnaður við slíka herferð er tólf milljónir króna árlega.
Meðal aðgerðanna var einnig innleiðing tillögu Evrópusambandsins um bann við plasthnífapörum, plastdiskum, plaströrum og öðru einnota plasti. Í aðgerðaráætlunin er lagt til að bann við eyrnapinnum, hnífapörum, diskum, rörum, hrærum og blöðruprikum úr plast verði flýtt og innleitt hér á landi frá og með 1. janúar 2020. Önnur aðgerð snýr að því að lagt er til að settur verði á fót sérstakur rannsókna- og þróunarsjóður til að styðja við styðja við nýjar lausnir sem komið geta í stað plasts og að efla hagnýtar rannsóknir um endurvinnslu á plasti.
Banna örplast 2020
Af öðrum tillögum hópsins var til dæmis lagt til að úrvinnslugjalds verði lagt á allt plast en ekki einungis umbúðaplast, önnur tillaga sneri að hreinsun frárennslis verði bætt til að minnka losun örplasts í hafið enda sé skólp hvergi hreinsað á Íslandi með tilliti til örplasts.Einnig er meðal aðgerða að banna hreinlætisvörur sem innihalda örplast frá árinu 2020 með sama hætti og gert var í Bretlandi fyrr á þessu ári. Örplast (e. micro beads) er óuppleysanlegt, innan við 5 mma ð stærð og brotnar ekki niður í umhverfinu eða lífverum. Það er að finna í ýmsum vörum eins og sápu, sturtusápu, andlits- og líkamsskrúbbum og tannkremi, og endar því iðulega í niðurföllum, vöskum og sturtubotnum þaðan sem þær eiga greiða leið út í haf.
Fjöldi annara aðgerða var í áætluninni þar á meðal aðgerð til að hreinsa strendur landsins, önnur um að rekstraraðilar verði með miðlægri upplýsingagjöf sem gerir þeim auðveldara fyrir við að velja grænni lausnir fyrir rekstur sinn, til dæmis umhverfisvænni umbúðir undir tilbúna matvöru. Aðrar aðgerðir sneru m.a. að styrkjum og viðurkenningum fyrir frumlegar plastlausnir.