Tölvuþrjótar í Rússlandi hyggjast selja einkaskilaboð frá meira en 80 þúsund Facebook-notendum þar sem skilaboð frá hverjum notanda muni kosta tólf krónur. Þetta kemur fram í frétt á vef BBC.
Samkvæmt fréttinni kom umræddur leki fyrst í ljós í september síðastliðnum þegar notandi að nafni "FBSaler" sagðist búa yfir upplýsingum um 120 milljónir Facebook-notenda á ensku spjallsvæði. BBC lét rannsaka sannleiksgildi staðhæfingarinnar og hefur staðfest að einkaskilaboð meira en 81 þúsund aðganga séu í höndum tölvuþrjótanna.
Umræddir aðgangar eru frá fjölmörgum löndum, en flestir þeirra eru frá Rússlandi og Úkraínu. Meðal annarra landa sem stolnu aðgangarnir koma frá eru Bandaríkin, Bretland og Brasilía einnig nefnd. Skilaboðin hafa að geyma ýmsar persónuupplýsingar, en meðal þeirra sem lekið hafa eru ferðaljósmyndir, spjall um nýlega Depeche Mode tónleika og kvartanir vegna tengdasonar.
Hakkararnir virðast hafa tengingu við Rússland, en samkvæmt fréttinni var ein vefsíða sem birti upplýsingar um aðgangana sett upp í Sankti Pétursborg. Einnig birtu þeir auglýsingu sem dreift var um netið, en í henni buðust þrjótarnir til að selja aðgang að skilaboðum hvers notanda fyrir tíu sent, sem jafngildir tólf krónum.
Samkvæmt Facebook hefur upplýsingunum verið aflað í gegnum vafraviðbót (e. extension) sem notendurnir höfðu hlaðið niður. Ekki hefur enn verið greint frá því hvaða vafraviðbót er um að ræða en Guy Rosen talsmaður Facebook segir samfélagsmiðilinn hafa séð fyrir því að hún væri ekki lengur aðgengileg á vefnum. Rosen bætir einnig við að miðillinn vinni nú með lögreglu auk rússneskra yfirvalda í því að síðan sem birti upplýsingarnar yrði tekin niður.
Facebook þvertekur þó fyrir það að lekinn sé vegna eigin mistaka og bætir við að öryggi miðilsins sé ekki í hættu.