Ráðherrar bresku ríkisstjórnarinnar voru boðaðir á fund í Downingsstræti klukkan tvö í dag til að ræða drög að Brexit-samningnum en tilkynnt var í gær að drögin lægu fyrir. Theresa May forsætisráðherra Breta vonast eftir því að ráðherrarnir lýsi yfir stuðningi sínum við drögin en hún þarfnast stuðnings þeirra til að geta lagt samninginn fyrir breska þingið. Frá þessu er greint á BBC.
Unnið hefur verið að samningnum í yfir ár en í drögunum er fjallað um hvernig útgöngu Breta úr Evrópusambandinu verður háttað. Samningsdrögin eru því lykiláfangi í samningaviðræðunum. Helsta ágreiningarefnið í samningaviðræðunum við ESB hefur verið um hvernig landamærum Írlands, sem er í Evrópusambandinu, við Norður-Írland, sem er hluti Bretlands, verði háttað eftir útgönguna.
Bæði Bretar og Evrópusambandið vilja forðast í lengstu lög að koma upp sjáanlegu landamæraeftirliti þar. En samkvæmt írska ríkisútvarpinu munu Norður-Írar þurfa að halda í stærri hluta af regluverki innri markaðar og tollabandalags ESB en önnur svæði Bretlands til þess að koma í veg fyrir sýnilega landamæragæslu á milli Norður-Írlands og Írlands.
Samkvæmt BBC eru samningsdrögin um 500 blaðsíður en stefnt er að því að samningurinn verði birtur bráðlega ef ríkisstjórnin samþykkir hann. Ráðherrar flykktust á Downingsstræti í gær til að líta yfir samninginn og funduðu einn af öðrum með forsætisráðherranum. Theresa May fullyrti á breska þinginu í dag að samningsdrögin um útgöngu Breta úr Evrópusambandinu byggi alfarið á niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar 2016 og hún fullyrðir að hann sé besti mögulegi samningurinn sem Bretum mun standa til boða.
Samningsdrögin þurfa fyrst að vera samþykkt af bresku ríkisstjórninni. Ef það gengur síðan eftir þá þarf breska þingið að samþykkja samninginn og að lokum öll aðildarríkin. Ef ríkisstjórnin samþykkir samninginn þá verður haldinn leiðtogafundur í Evrópusambandinu seinna í þessum mánuði til að fullklára hann áður en samningurinn verður lagður fyrir breska þingið fyrir jól.
Óvíst hvort samningurinn verði samþykktur
Óvíst er hins vegar hvort May hafi stuðning ríkisstjórnarinnar en viðbrögð ráðherra við tíðindunum hafa verið misjöfn, samkvæmt fréttastofu BBC. Mögulegt er að fleiri ráðherrar munu segja af sér embættum til að mótmæla samningnum en Jo Johnsson sagði af sér ráðherraembættinu síðastliðinn föstudag vegna óánægju með áform May varðandi Brexit.
Jeffrey Donaldson, þingmaður norður-írska DUP-flokksins sem ver ríkisstjórn Íhaldsflokksins vantrausti, segir í samtali við BBC að erfitt verði að koma þessu samkomulagi í gegnum þingið. Jeremy Corbyn formaður Verkamannaflokksins segir samningsdrögin slæm og May sé að leggja fram „falskan“ valkost fyrir þingið. Innan Íhaldsflokksins eru einnig ýmsir ósáttir, einkum harðasti Brexit-vængur flokksins en samkvæmt þeim er samningurinn ekki sú útganga úr Evrópusambandinu sem fólkinu hafði verið lofað. Jacob Rees-Mogg, einn helsti stuðningsmaður Brexit, lýsir því yfir að hann sé svo óánægður með drögin að hann gæti hætt að styðja May. Þá hefur Boris Johnson, fyrrverandi utanríkisráðherra Bretlands og núverandi þingmaður, sagt að hann muni ekki samþykkja drögin og að ríkisstjórn May hafi mistekist að verja Bretland. Frá þessu er greint í frétt BBC.
Julian Smith, þingflokksformaður Íhaldsmanna sem sér um að smala saman atkvæðum Íhaldsflokksins á þingi, hefur hins vegar sagt að hann sé sannfærður um að samningsdrögin muni komast í gegnum þingið.
MPs react to reports about what's in that all-important draft #Brexit deal
— BBC Politics (@BBCPolitics) November 13, 2018
[Tap to expand]https://t.co/YZhNLcpHUr pic.twitter.com/wDBFzD6OU0
Hvað gerist ef ríkisstjórnin samþykkir drögin?
Jafnvel þó Theresa May fái blessun ríkisstjórnarinnar þá er ljóst að slagurinn um að fá samninginn samþykktan í breska þinginu verði erfiður. Forsætisráðherrann hefur ekki meirihluta þingmanna í neðri deild þingsins með sér í liði. Þingmenn Verkamannaflokksins sem og annarra stjórnarandstöðuflokka hafa nú þegar lýst yfir að þeir séu fullir efasemda um samninginn eða hafa lýst yfir andstöðu gegn honum.
Samkvæmt heimildarmönnum BBC er eini möguleikinn fyrir Theresu May til að fá samninginn samþykktan í þinginu að kynna hann sem eina mögulega samninginn fyrir Bretland í von um að fá þá sem eru tvístígandi með sér í lið. Samkvæmt heimildum BBC eru nokkrir þingmenn Verkamannaflokksins og Íhaldsflokksins að reyna að sjá til þess að einnig verði kosið um aðra möguleika í þinginu.
Ef þingið samþykkir ekki samninginn þá er óvíst hvað muni gerast næst. Samkvæmt BBC er möguleiki á því að May reyni að endursemja um nýjan samning við Evrópusambandið. Líklegt þykir að tími hennar sem forsætisráðherra sé á enda ef ekki næst sátt við breska þingið, hvort sem það sé með nýrri kosningu eða að nýr forsætisráðherra verði valinn. Haft er eftir heimildarmönnum BBC að möguleiki sé á því að hún muni kalla eftir nýrri þjóðaratkvæðagreiðslu en forsætisráðherrann hefur margoft sagt að sá möguleiki sé ekki fyrir hendi.
Fulltrúar ríkja Evrópusambandsins þurfa sömuleiðis að samþykkja drögin en samkvæmt heimildarmönnum BBC munu sendiherrar aðildarríkjanna 27 koma saman í Brussel í dag til að ræða drögin. Stefnt er að því að halda leiðtogafund í lok mánaðarins þar sem skrifað verður undir samningsdrögin ef ríkisstjórnin samþykkir drögin. Á þeim fundi á einnig að ræða hvernig samskiptum Bretlands og ESB verður háttað eftir útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu, sem áætluð er 29. mars á næsta ári en gert er ráð fyrir 21 mánaða aðlögunartímabili eftir það.
Hér má fylgjast með beinni lýsingu breska ríkisútvarpsins frá framvindu Brexit-viðræðnanna í dag.