Einar Karl Hallvarðsson ríkislögmaður er vanhæfur til að koma að bótamáli þeirra sem sýknaðir voru í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu.
Ástæðan er sú að faðir hans Hallvarður Einvarðsson var vararíkissaksóknari þegar rannsókn á málunum hófst í kringum áramótin 1975-76. Hann hefur því vikið sæti í bótamálinu og Andri Árnason lögmaður hefur verið settur ríkislögmaður í hans stað í málinu. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag.
Endurupptökunefnd féllst í febrúar í fyrra á að dómur Hæstaréttar í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu sem felldur var árið 1980 skyldi tekinn upp hvað varðaði fimm sakborninga af sex. Endurupptökubeiðni Erlu Bolladóttur var hins vegar hafnað. Þann 27. september síðastliðinn voru fimmmenningarnir sýknaðir í Hæstarétti.
Í byrjun október skipaði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sáttanefnd fyrir hönd stjórnvalda til að leiða sáttaviðræður við fyrrverandi sakborninga. Nefndina skipa Kristrún Heimisdóttir lögfræðingur, en hún mun sitja sem fulltrúi forsætisráðuneytis og formaður nefndarinnar, Bryndís Helgadóttir skrifstofustjóri í dómsmálaráðuneytinu og Magnús Óskar Hafsteinsson sérfræðingur í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Ríkislögmaður vinnur að málinu ásamt sáttanefndinni þar sem hún hefur ekki umboð lögum samkvæmt að semja um greiðslur úr ríkissjóði.
Katrín segir við Fréttablaðið að vanhæfi Einars Karls hafi legið fyrir frá öndverðu og ekki verið umdeilt af hálfu neins.