Freyja Haraldsdóttir, fyrrverandi varaþingmaður Bjartrar framtíðar og þekkt baráttukona fyrir auknum mannréttindum fatlaðra, segir að orðræðan um ekki allir þingmenn eða karlar séu blindfullir á bar að tala með ofbeldisfullum hætti um konur og jaðarsetta hópa geti verið afar sársaukafull fyrir þolendur og að hennar mati viðheldur hún ofbeldismenningu. Orðræðan snúi athyglinni að vanlíðan fólks í forréttindastöðu en ekki þeirra sem ganga í gegnum alls konar afleiðingar þessara atburða. Þetta kemur fram í stöðuuppfærslu Freyju á Facebook.
„Í þessu Klausturmáli hafa karlmenn í umförmum, líka karlmenn sem ég þekki vel og þykir vænt um, stigið fram eða tekið sér pláss til þess að segja að ekki allir karlar séu eins og þeir þingmenn sem sátu og spúðu hatri á Klaustur. Þá hafa þingmenn og fyrrum þingmenn einnig komið fram með yfirlýsingar um að ekki allir þingmenn séu blindfullir á bar að tala með ofbeldisfullum hætti um konur og jaðarsetta hópa,“ segir Freyja.
Hún bendir á að það sé vissulega rétt að allir karlmenn og allt stjórnmálafólk séu ekki gerendur ofbeldis. Þá skilji hún pirring karlmanna og stjórnmálafólks varðandi tilraun gerenda til þess að koma ábyrgðinni af sér með því að segja að allir hagi sér svona hvort sem er. „Við viljum að þau gangist við ofbeldinu, taki ábyrgð, segi af sér og raunverulega iðrist þess sem þau hafa gert,“ segir hún.
Allir þurfa að líta í eigin barm
„Mörg okkar höfum ítrekað orðið fyrir ofbeldi og því geta afleiðingarnar verið miklar, t.d. svefnleysi, síþreyta, líkamlegir verkir, kvíði, þunglyndi, doði, endurupplifanir, upprifin gömul sár, einbeitingarskortur og lystarleysi. Ég er ekki að segja að sársauki eins útiloki sársauka annarra en ég er samt að segja að kannski væri nær að karlmenn og stjórnmálafólk spöruðu karllægu, ófötluðu og gagnkynhneigðu tárin sín og nýttu tilfinningar sínar í að vinna með markvissum hætti gegn þessari ofbeldismenningu og þannig skapa þolendum rými til þess að vinna úr sínum áföllum,“ segir Freyja.
Hún bendir jafnframt á að allir séu partur af þessu ófatlaða og gagnkynhneigða feðraveldi. „Við erum öll fordómafull. Við eigum öll í hættu að vera fordómafull og ómeðvituð um forréttindi okkar. Í raun getur engin sagt: það var ekki ég! Svona fyrir utan það að rannsóknir og reynsla sýna okkur þær svimandi háu tölur um kynbundið ofbeldi. Einnig ofbeldi gagnvart fötluðu fólki. Hinsegin fólki. Ofbeldi er líka ekki bara eitthvað eitt. Það er ekki bara það að lemja, nauðga og smána. Ofbeldi getur verið kerfisbundið, t.d. króna á móti krónu skerðing, mannanafnanefnd og bleikur skattur. Ofbeldi getur verið menningarbundið, t.d. að nota fötlun sem aðhlátursefni í áramótaskaupinu nær undantekningarlaust í áraraðir og þegar ólík leikföng senda skilaboð á pakkningu um að þau séu fyrir stelpu eða stráka. Í slíku ofbeldi getum við ekki bent á einn geranda heldur bara valdakerfi og hugmyndafræði sem þarf að uppræta.
Við erum öll hluti af því ferli. Við þurfum öll að líta í eigin barm. Á hverjum einasta degi. Með því að afneita því erum við að skapa kjöraðstæður fyrir ofbeldismenningu. Þetta breytir ekki því að beinir gerendur þurfa að taka ábyrgð á sínum gjörðum. Eitt útilokar ekki annað.
Ef karlmenn og stjórnmálafólk eiga í miklum erfiðleikum með að liggja undir grun verða þeir að taka þá umræðu þar sem hún á heima. Hjá gerendum. Ekki agnúast út í konur og jaðarsetta hópa um þau óþægindi sem réttindabarátta okkar veldur. Sú tilfinningavinna á ekki að vera í höndum þolenda!“ segir Freyja.
Í þessu Klausturmáli hafa karlmenn í umförmum, líka karlmenn sem ég þekki vel og þykir vænt um, stigið fram eða tekið...
Posted by Freyja Haraldsdóttir on Sunday, December 16, 2018