Starfsgreinasamband Íslands birti í vikunni nýja rannsókn á högum erlendra kvenna á íslenskum vinnumarkaði. Í skýrslunni segir að þó að stéttarfélögin hafa þjónað þessum hópi ágætlega, að minnsta kosti þeim sem vissu af tilvist félaganna og eru í föstu ráðningarsamband, þá megi margt betur fara og þá sérstaklega í málum flóttakvenna. Sérstaklega nefna þær erlendu konur sem rætt var við í rannsókninni að þörf sé á fleiri og betri íslenskunámskeiðum sem og tölvunámskeiðum.
Rannsóknin var framkvæmd í kjölfar #metoo-sagna kvenna af erlendum uppruna sem litu dagsins ljós í fyrra. Í þeim sögum kom í ljós að konur í þessum hópi eru meðal þeirra valdaminnstu á vinnumarkaði og því í viðkvæmri stöðu gagnvart misbeitingu valds. Í skýrslunni segir að Starfsgreinasambandinu þótti því nauðsynlegt að skoða þennan hóp betur og athuga hvernig þær komi inn á vinnumarkaðinn og við hvaða skilyrði þær starfi. Rætt var við konur frá Taílandi, Filippseyjum, Sýrlandi og Póllandi í rýnihópum.
Ísland orðið fjölmenningarsamfélag
Í rannsókninni segir að ljóst sé að Ísland er í dag orðið fjölmenningarsamfélag. Vinnandi fólk af erlendum uppruna í janúar árið 2018 var 17,2 prósent af öllu vinnandi fólki á Íslandi samkvæmt Hagstofunni. Íslenskar rannsóknir hafa einnig sýnt að meirihluti innflytjenda kemu þe til Íslands í þeim tilgangi að setjast að hér á landi.
Drífa Snædal, fyrrverandi framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins, segir að rannsóknin sýni að ýmislegt megi betur gera. Hún bendir á að meðal annars verður að standa betur að íslenskunámskeiðum en meirihluti kvennanna í rannsókninni sögðu að það vantaði sárlega túlk eða einhvern sem talaði þeirra tungumáli til að kenna námskeiðin þar sem sumar þeirra töluðu litla sem enga ensku. Ásamt því lögðu konurnar áherslu á mikilvægi þess að geta leitað til trúnaðarmanns í vinnu.
Drífa segir að einnig þurfi að leggja meiri áherslu á tölvunámskeið en til dæmis nefndu sýrlensku konurnar að takmörkuð tölvukunnátta þeirra aftraði þeim mikið en þær höfðu til dæmis ekki þekkinguna til þess að greiða reikningana sína í heimabankanum eða finna húsnæði. Drífa bendir á að enn fremur sé ljóst að finna verður leiðir til að meta menntun þeirra sem koma erlendis frá til að vinna hér á landi, til dæmis að bjóða upp á raunfærnimat í auknum mæli.
Fundu allar fyrir andlegri vanlíðan
Rætt var við konurnar í ólíkum rýnihópum eftir því frá hvaða löndum þær komu. Í rannsókninni var sérstaklega einn hópur sem átti erfitu með að fóta sig á íslenskum vinnumarkaði. Sá hópur samanstóð af fjórum konum frá Sýrlandi en þær komu til Íslands á vegum flóttamannaverkefnis ásamt fjölskyldum sínum. Konurnar höfðu stöðu flóttakvenna þegar þær fengu upplýsingar um að þær væru að fara til Íslands. Þær gátu ekki valið hvert þær færu heldur var þeim úthlutað Íslandi.
Allar konurnar í sýrlenska rýnihópnum töluðu um að finna fyrir andlegri vanlíðan sem gerði það að verkum að erfiðara var fyrir þær að ná að fóta sig á íslenskum vinnumarkaði. Aðeins hluti kvennanna hafði fengið sálfræðiaðstoð eftir komuna til Íslands. Þá aðeins í eitt eða tvö skipti en jafnframt tóku þær fram að fleiri tímar væru væntanlegir.
Þurftu strax að borga skatta og húsaleigu
Sýrlensku konurnar sögðu frá því hversu erfitt þeim fannst að átta sig á og takast á við það misræmi sem þær sögðu að hefði verið á milli þeirra upplýsinga sem þær fengu fyrir komuna til Íslands og hins vegar þeirrar aðstoðar sem þær síðan fengu á Íslandi. Þær höfðu til dæmis fengið upplýsingar um að hluti launa þeirra rynni til ríkisins í formi skatts en í rannsókninni segir að konunum hafi brugðið þegar þær áttuði sig á því að næstum helmingur launa þeirra var dreginn af þeim.
Auk þess fengu konurnar þær upplýsingar að þær myndu fá aðstoð og stuðning í eitt ár við að átta sig á sínu nýja umhverfi. Konurnar áttu til dæmis ekki að fara út á vinnumarkaðinn fyrsta árið eftir að þær komu til landsins en hluti þeirra hóf störf aðeins þremur mánuðum eftir komuna til Íslands.
„Það var sagt við okkur í ... að þetta mun vera eitt ár sem við munum vera án vinnu og án að borga húsaleigu en það var svona sjokk sem sagt að við þurftum að fara strax að vinna eftir þrjá mánuði og líka borga húsleigu og allt þetta dót,“ segir ein kvennanna í hópnum.
Mismunandi þjónusta eftir sveitarfélögum
Enn fremur sögðu konurnar frá því í rannsókninni hvernig það angraði þær að ekki væri sama þjónustan í boði fyrir allt flóttafólk á Íslandi heldur valt það á hverju sveitarfélagi fyrir sig hvaða þjónusta var í boði. Til að mynda höfðu þær heyrt af flóttafólki sem var búsett á höfuðborgarsvæðinu og hafði haft aðgang að íslenskunámskeiðum undanfarin þrjú ár sem voru niðurgreidd af félagsþjónustunni.
Konurnar sögðu frá því hvernig takmörkuð tölvukunnátta þeirra hafði aftrað þeim, sem dæmi höfðu þær ekki þekkingu til þess að greiða reikningana sína í heimabankanum. Konurnar sátu sextán tíma tölvunámskeið eftir að þær komu til Íslands en þeim þótti það alls ekki nóg.
Í rannsókninni segir að athuga þyrfti möguleika þess að samtvinna íslenskunámskeið og tölvunámskeið eða a.m.k. gera innflytjendum, sem hafa litla tölvukunnáttu, kleift að nálgast kennsluna á auðveldan hátt. Jafnframt sé ljóst að ýmislegt er ábótavant í fyrirkomulagi flóttamannaverkefni. Meðal annars þurfi að tryggja að flóttafólk fái lágmarksupplýsingar um þá þjónustu sem stendur þeim til boða og að það sé upplýst um réttindi og skyldur á íslenskum vinnumarkaði.
Úr einum slæmum stað í aðrar slæmar aðstæður
Í heildina þá fannst sýrlensku konunum þær ekki hafa náð að verða virkir þátttakendur í íslensku samfélagi út frá þeim stuðningi sem þeim hafði verið veittur síðan þær komu til Íslands. Í rannsókninni segir einnig að konurnar séu hræddar um hvað verði um þær og fjölskyldur þeirra þegar fyrsta árinu þeirra á Íslandi lýkur. Í rannsókninni er þó tekið fram að eitt ár sé ekki nógu langur tími fyrir fjölskyldur sem koma frá stríðshrjáðum löndum til að fóta sig í nýju samfélagi.
Allar sýrlensku konurnar sögðust mjög þakklátar Íslendingum fyrir að bjóða þær velkomnar en eins og staðan væri í dag þá liði þeim eins og þær hefðu farið úr einum slæmum aðstæðum í aðrar slæmar aðstæður. Allar konurnar voru sammála því að Ísland væri öruggt land en þrjár kvennanna sáu fram á að vera heimilislausar um áramótin þar sem eigandi húsnæðisins sem þær bjuggu vildi annaðhvort selja húsið eða fá íbúðina aftur. Konurnar sögðu frá því hvernig þær leituðu til félagsþjónustunnar um aðstoð en svörin sem þær hefðu fengu var að þær hefðu lært íslensku og gætu því fundið sér nýtt húsnæði sjálfar.
Staðreyndin er aftur á móti sú að íslenskukunnátta þeirra er takmörkuð og þær hafa enga tölvukunnáttu sem gerir þeim mjög erfitt fyrir að leita sér að nýju húsnæði, samkvæmt rannsókninni. Jafnframt segir í skýrslunni að þær hafi átt mjög erfitt með að standa í skilum á daglegum útgjöldum fjölskyldunnar á þeim bótum eða launum sem þær hafa til ráðstöfunar á mánuði.