Íslandspóstur hlaut ekki samþykki Samkeppniseftirlitsins áður en dótturfyrirtæki þess, ePóstur, var sameinað móðurfélaginu. Í sátt sem fyrirtækið gerði við Samkeppniseftirlitið í febrúar 2017 segir að ekki megi sameina dótturfélög móðurfélaginu nema samþykki eftirlitsins liggi fyrir. Frá þessu var greint í Fréttablaðinu í dag. Félag atvinnurekenda hefur sent frá sér tilkynningu vegna umfjöllun Fréttablaðsins í morgun, í tilkynningunni segir að þetta mál sýni enn og aftur fram á þörfina á að gerð verði óháð úttekt á Íslandspóst og öllum þeim „röngu ákvörðunum“ sem þar hafi verið teknar, ekki síst um samkeppnisrekstur eins og ePóst.
Íslandspóstur lánaði ePóst 300 milljónar
Hinn 13. desember síðastliðin var ePóstur afskráð úr fyrirtækjaskrá og innlimað inn í Íslandspóst. Í 9. grein sáttar Íslandspósts og Samkeppniseftirlitsins frá því í febrúar 2017 kemur skýrt fram að ekki megi sameina nokkur dótturfélög Íslandspósti, þar á meðal ePóst, án samþykkis Samkeppniseftirlitsins og álits sérstakrar eftirlitsnefndar, sem framfylgir því að sáttin sé haldin. Samruni félaganna var ákveðinn síðasta sumar, samkvæmt umfjöllun Fréttablaðsins, en eftirlitsaðilum var ekki tilkynnt um fyrirætlunina fyrr en fjórum mánuðum síðar. Beiðni um afstöðu eftirlitsnefndarinnar var hins vegar ekki send fyrr en þremur dögum eftir að Félag atvinnurekenda kærði Póstinn í október, samkvæmt Félagi atvinnurekenda.
Fyrirtækið ePóstur var stofnað var árið 2012. Samkvæmt ársreikningi 2013 fékk fyrirtækið 247 milljónir í lán frá móðurfélagi sínu. Tap á rekstri var 80 milljónir það rekstrarár og eiginfjárstaða félagsins neikvæð sem því nemur. Árið 2014 fékk fyrirtækið aftur lán frá Íslandspóst, nú upp á 55 milljónir. Fyrirtækið skilaði rekstrartapi upp á 90 milljónir það ár og var eigið fé neikvætt um 151 milljón. Lán Íslandspóst til ePóst nam því rúmum 300 milljónum króna en lánið hefur nær enga vexti borið. Í fyrrnefndri sátt við Samkeppniseftirlitið segir að reikna skuli vexti á lánin. Séu lánin látin bera markaðsvexti má reikna með að tap Íslandspóst af ePósti nemi hátt í hálfan milljarð króna.
Afstaða Samkeppniseftirlitsins liggur ekki fyrir
Ekki liggur fyrir afstaða hjá Samkeppniseftirlitinu um hvort aðgerð Íslandspóst sé brot gegn sáttinni. Í skriflegu svari Samkeppniseftirlitsins við fyrirspurn Fréttablaðsins segir að ekki liggi fyrir hvort að gripið verði til aðgerða gagvart Íslandspóst en að fram kemur að málið sé í skoðun.
Fyrir jól samþykkti Alþingi 1,5 milljarða neyðarlánsheimild til Íslandspósts vegna bágrar fjárhagsstöðu. Íslandspóstur hefur ekki staðið undir sér undanfarin ár meðal annars vegna mikils samdráttar í bréfasendingum og niðurgreiðslu erlendra póstsendinga. Dreifingardögum póstsins hefur verið fækkað og póstburðargjald hefur þrefaldast á tíu árum. Fjárfestingar fyrirtækisins hlaupa á milljörðum og fyrirtækið hefur tapað hundruðum milljónum króna vegna lána til dótturfélaga Íslandspósts. Íslenska ríkið ákvað að lána Íslandspósti stórfé þrátt fyrir að ekki liggi fyrir greining á því hvað valdi miklum rekstrarvanda. Frá því hefur verið greint að Ríkisendurskoðun telji það óheppilegt að ekki liggi fyrir hvernig eigi að taka á vandanum áður en fjármagn sé sett í það.
Beðið um afstöðu Samkeppniseftirlitsins eftir kæru frá Félagi atvinnurekenda
Í fyrrgreindri tilkynningu frá Félagi atvinnurekenda segir að félagið hafi kært Íslandspóst til Samkeppniseftirlitsins í október síðastliðnum vegna þess að ekki höfðu verið reiknaðir markaðsvextir á lán félagsins til ePósts, eins og sáttin kveður þó skýrt á um. Í svörum Íslandspósts til eftirlitsnefndarinnar, sem Félag atvinnurekenda greindi frá 5. desember síðastliðinn, kom fram að ekki hefði verið farið að ákvæðum sáttarinnar um vaxtaútreikninginn af því að ákveðið hefði verið að sameina ePóst móðurfélaginu annaðhvort árið 2017 eða í júní 2018, stjórnendum Íslandspósts ber ekki saman um það, samkvæmt tilkynningu FA.
Slíkt er hins vegar óheimilt án þess að afla fyrst álits eftirlitsnefndarinnar og svo samþykkis Samkeppniseftirlitsins. Beiðni um afstöðu eftirlitsnefndarinnar var hins vegar ekki send fyrr en þremur dögum eftir að Félag atvinnurekenda kærði Póstinn í október, samkvæmt tilkynningunni FA.
Félag atvinnurekenda fékk staðfest frá eftirlitsnefndinni 4. desember síðastliðinn að afstaða hennar til beiðni Íslandspóst um sameiningu við ePóst lægi ekki fyrir. Eftir að í ljós kom að ePóstur var afskráður úr fyrirtækjaskrá hinn 13. desember sendi félagið eftirlitsnefndinni enn kvörtun og spurði hvort afstaða nefndarinnar eða samþykki Samkeppniseftirlitsins hafi legið fyrir við sameiningu félaganna. Hvorki nefndin né Samkeppniseftirlitið hefur svarað félaginu, en í Fréttablaðinu í morgun staðfestir Samkeppniseftirlitið að ekki liggi fyrir hjá stofnuninni afstaða til þess hvort aðgerðin sé brot á sáttinni.
Segir Íslandspóst hafa falið hið raunverulega tap á fyrirtækinu sem sé nálægt hálfum milljarði
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, segir í tilkynningunni að þetta mál sé með miklum ólíkindum. „Íslandspóstur telur sáttina við Samkeppniseftirlitið augljóslega lítils virði. Það vekur furðu okkar hversu svifaseint eftirlitið með fyrirtækinu er af hálfu samkeppnisyfirvalda. Augljós brot liggja í augum uppi - það þarf ekki annað en að kunna að lesa til að átta sig á því. Forsvarsmenn Íslandspósts verða jafnframt uppvísir að ósannindum um samskipti sín við samkeppnisyfirvöld en viðbrögð eftirlitsnefndarinnar og Samkeppniseftirlitsins láta á sér standa. Eftirlitsnefndin var 18 mánuði að svara annarri kæru FA vegna sáttarinnar, sem sneri að sendibílaþjónustu Póstsins. Það væri fáránlegt ef það tæki samkeppnisyfirvöld jafnlangan tíma að bregðast við í þessu máli,“ segir Ólafur.Hann segir jafnframt að með því að koma sér hjá því að reikna vexti á lán ePósts hafi Íslandspóstur falið hið raunverulega tap á fyrirtækinu, sem sé nálægt hálfum milljarði króna.
„Með því að sameina félögin býr Íslandspóstur sér svo til möguleika á að skrá kostnaðinn vegna ePósts á alþjónustuna og krefjast þess að hann verði bættur úr sameiginlegum sjóðum eins og annar taprekstur fyrirtækisins. Þetta mál sýnir enn og aftur fram á þörfina á að gerð verði óháð úttekt á Íslandspóst og öllum þeim röngu ákvörðunum sem þar hafa verið teknar, ekki síst um samkeppnisrekstur eins og ePóst,“ segir Ólafur að lokum.