Í dag verður opnuð vefsíða með vitnisburðum um kynferðisbrot og áreiti Jóns Baldvins Hannibalssonar, fyrrverandi ráðherra og sendiherra, í garð kvenna og barna.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá hóp kvenna sem sér um vefsíðuna.
Í henni kemur fram að elsta sagan sé frá árinu 1962 og sú yngsta frá árinu 2018. Sögunum var safnað saman á Facebooksíðunni #metoo Jón Baldvin Hannibalsson. Frásagnirnar er að finna á síðunni metoo-jonbaldvin.blog.is. Einnig er hægt að lesa frásagnirnar hér.
Heldur því fram að atvik hafi verið sviðsett
Jón Baldvin var í viðtali í Silfrinu á RÚV í gær þar sem hann ræddi þær ásakanir sem settar hafa verið fram á hendur honum um kynferðisbrot. Þetta var fyrsta viðtalið sem hann veitir frá því að konur stigu fram í Stundinni í janúar og sökuðu hann um kynferðislega áreitni.
Í viðtalinu var Jón Baldvin meðal annars spurður út frásagnir þeirra fjögra kvenna sem stigu fram í Stundinni þann 11. janúar síðastliðinn og sögðu að hann hefði áreitt þær kynferðislega. Tvær þeirra voru nemendur hans í Hagaskóla en hinar tvær tengjast honum fjölskyldu- eða vinaböndum. Tvær aðrar konur úr fjölskyldunni hafa einnig stigið fram. Frásagnirnar spanna yfir fimmtíu ár en nýjasta frásögnin hverfist um meinta kynferðislega áreitni sem á að hafa átt sér stað á Spáni síðasta sumar. Þar segir Carmen Jóhannsdóttir frá því að Jón Baldvin hafi áreitt hana kynferðislega á heimili hans og Bryndísar Scharm á spáni.
„Þegar ég stóð upp á einum tímapunkti og fór að skenkja í glösin, þá bara gerði kallinn sér lítið fyrir og byrjaði að strjúka á mér rassinn.“ segir Carmen í viðtali við Stundina. Hún segist hafa frosið, horft á hinar konurnar við borðið og reynt að átta sig á hvað væri að gerast. „Ég fékk svo mikið áfall að ég vissi ekki hvað ég ætti að gera. Ég veit ekki hvernig ég á að útskýra þetta.“ Hún settist niður hjá móður sinni og vissi ekki hvað hún átti að segja. Laufey, móðir hennar, staðfestir í samtali við Stundina að hún hafi séð Jón Baldvin káfa á Carmen. „Ég horfði á þetta gerast,“ segir Laufey. „Ég sagði honum við borðið að ég hefði séð hann gera þetta og að það minnsta sem hann gæti gert væri að biðja hana afsökunar fyrir framan okkur. Hann hélt nú ekki.“
Jón Baldvin rifjaði upp þessa heimsókn þeirra mæðgna í Silfrinu og fullyrti að atvikið hefði verið sviðsett. „Við erum varla fyrr sest þegar að móðir Carmenar - það var hún sem hrópar þetta upp: „Jón Baldvin, þú ert að káfa á henni, ég sá það“. Þetta voru hennar orð,“ sagði Jón Baldvin. „Það getur ekkert verið annað að baki þessari heimsókn heldur en að reyna að setja þetta á svið vegna þess að þetta er ósatt. Það var engin snerting, ekki neitt,“ staðhæfði hann. Hann sagði að engin önnur skýring gæti verið að baki þess að Carmen og móður hennar hefðu komið í heimsókn til þeirra á Spáni heldur en að hún hefði verið til þess gerð að koma höggi á hann. Fanney Birna spurði þá hvort hann teldi að móðurinn hefði sigað dóttur sinni á hann til þess eins að geta sakað hann um kynferðisofbeldi. Þá sagði Jón að þær mæðgurnar væru tengdar Aldísi dóttur hans.