Frans páfi segir kynferðislegt ofbeldi presta í garð nunna viðvarandi vandamál innan kaþólsku kirkjunnar. Undanfarin ár hafa nunnur víða um heim stigið fram og sagt frá meintri kynferðislegri misnotkun presta en þetta er talið í fyrsta skiptið sem páfi viðurkennir vandamálið. Frans páfi fullyrðir að Páfagarður vinni að því að bæta stöðu mála og nú þegar hafi prestum verið vísað úr starfi. Frá þessu er greint á vef BBC.
Nunnur notaðar sem kynlífsþrælar
Fréttamenn spurðu Frans út í ásakanirnar um borð í flugvél páfa þegar hann var á leið heim til Rómar frá Sameinuðu arabísku furstadæmunum í gær. Páfinn staðfesti þá að kynferðislegt ofbeldi gagnvart nunnun af hendi presta og biskupa væri viðvarandi vandamál innan kaþólsku kirkjunnar. Frans sagði frá því að forveri sinn í embætti, Benedikt sextándi, hefði árið 2005 neyðst til þess að loka heilli nunnureglu í Frakklandi eftir að upp komst að nunnurnar sættu kynferðislegu ofbeldi af hálfu prestanna. Auk þess hefði í eitt skipti nunnur verið notaðar sem kynlífsþrælar í einni reglu. Hann fullyrti að ofbeldið ætti sér enn stað innan kirkjunnar en þó aðallega í vissum söfnuðum og þá sérstaklega nýjum söfnuðum.
Í umfjöllun BBC segir að þetta sé í fyrsta skiptið sem Frans páfi viðurkenni kynferðisofbeldi presta í garð nunna. Páfinn fullyrti að Páfagarður ynni að því að taka á vandamálinu og bætti því við að nú þegar hefði einhverjum prestum verið vísað úr starfi.
Fordæma ofbeldið og leyndarhyggjuna
Í nóvember á síðasta ári sendu Alþjóðasamtök kaþólskra nunna, The Catholic Church's global organisation for nuns, frá sér tilkynningu um að samtökin fordæmdu þöggunarmenninguna og leyndarhyggjuna sem ætti sér stað innan kirkjunnar og kæmi í veg fyrir að nunnur stigju fram.
Fyrir nokkrum dögum fordæmdi kvennatímarit Vatíkansins, Women Church World, einnig misnotkunina og sagði frá því að í sumum tilfellum hefðu nunnur neyðst til að fara í þungunarrof, en þungunarof eru bönnuð samkvæmt kaþólskri trú. Ritstjóri blaðsins, Lucetta Scaraffia, sagði jafnframt að viðurkenning páfans á ofbeldinu væri skref í rétta átt en ítrekaði að kirkjan þyrfti að grípa til aðgerða. „Ef kirkjan heldur áfram að loka augunum fyrir hneykslinu, þá mun kúgun kvenna í kirkjunni aldrei breytast,“ sagði Lucetta. Hún sagði jafnframt að það væri metoo-hreyfingunni að þakka að fleiri nunnur væru að stíga fram.
Grimmdarverk presta gegn börnum
Í ágúst í fyrra sendi Frans páfi kaþólikkum um allan heim bréf þar sem hann afsakaði og harmaði grimmdarverk presta innan kaþólsku kirkjunnar gagnvart börnum. Hann gerði það í kjölfar nýuppkomins máls í Pannsylvaníu ríki, þar sem þúsundir barna voru misnotuð af prestum kaþólsku kirkjunnar yfir áratugatímabil. Það beindi kastljósinu enn einu sinni að þeim grimmdarverkum sem prestar innan kaþólsku kirkjunnar bera ábyrgð á. Þá hafa margir af æðstu mönnum kirkjunnar gerst sekir um yfirhylmingu, með því að tilkynna ekki um glæpi presta til lögreglu þrátt fyrir vitneskju um þá.
Í bréfi sínu sagði Frans páfi, að hann fordæmdi alla þá glæpi sem komið hafa upp á yfirborðið. „Það er nauðsynlegt að við getum viðurkennt og fordæmt, með sorg og skömm, þau grimmdarverk sem framin hafa verið af vígðum einstaklingum, og öllum þeim sem falið hefur verið að vernda þá sem minna mega sín.“