Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, segir að það komi til greina að Icelandair Group efni ekki til hlutafjárútboðs. Í samtali við Markaðinn í dag sagði Bogi Nils að ef salan á Icelandair Hotels gangi vel og það verði ekki frekari breytingar á samkeppnisumhverfinu þá gæti verið að Icelandair Group efni ekki til hlutafjárútboðs að svo stöddu. Hann segir það koma í ljós á hluthafafundi félagsins næstkomandi föstudag.
Upphaflega átti að auka hlutafé til að fjármagna kaupin á WOW air
Icelandair group stefndi að hlutafjárboði á fyrsta ársfjórðungi í ár. Hins vegar var upplýst á aðalfundi félagsins að nú væri horft til fyrri helmings ársins, samkvæmt umfjöllun Markaðarins. Fjárhæðin sem safna á er 625 milljónir að nafnvirði, miðað við markaðsvirðið núna er um rúmlega 4,4 milljarða króna að ræða.
Í samtali við Markaðinn segir Bogi Nilsað upphaflega hafi verið ákveðið að auka hlutafé Icelandir Group til að fjármagna kaup félagsins á WOW air. Í nóvember kom hins vegar í ljós að þau kaup gengu ekki eftir. Bogi segir að engu síður hafi Icelandair sótt um heimild til hluthafa þess efnis að auka hlutafé til að nýta til vaxtar ef breytingar verði á samkeppnisumhverfinu. „Enn er stefnt að útboðinu en við viljum fá skýrari mynd á það hvernig landið liggur áður en efnt verður til hlutafjárútboðs“ segir Bogi Nils.
Lánið nýtt til að fjármagna skuldabréf á hagstæðari kjörum
Tilkynnt var í gær að Icelandair hefði fengið lán upp á 80 milljónir Bandaríkjadala, um 10 milljarða króna, frá innlendri lánastofnun, sem reyndist svo vera Landsbankinn. Ríkisbankarnir, Íslandsbanki og Landsbankinn, eru nú meðal lánveitenda félagsins en félagið er að miklu leyti í eigu íslenskra lífeyrissjóða. Bogi Nils segir að lánið verði nýtt til að fjármagna skuldabréf á hagstæðari kjörum. Þá sé að auk lengt í láninu en það sé til fimm ára. Hann segir að því muni skuldir félagsins ekki aukast fyrir vikið.
Greint hefur verið frá því í fjölmiðlum að vegna versnandi afkomu á síðasta ári og endurfjármögnun skulda þá hafi félagið brotið gegn skilmálum í fjármögnun. Þá kemur fram í samtali Bogi við Markaðinn að að félagið greiddi félagið 73 milljónir dollara inn á skuldabréfaflokkinn í janúar. Félagið muni því á skömmum tíma hafa greitt 153 milljónir dollara inn á lánið, jafnvirði 18,5 milljarða króna.
„Þá standa 60 milljónir dollara eftir og það kemur til greina að endurfjármagna þá að fullu fyrir lok annars fjórðungs. Við höfum nokkuð mikinn sveigjanleika. Við getum veðsett flugvélar í okkar eigu sem eru óveðsettar og getum því stokkið til ef viðunandi kjör bjóðast á markaðnum, “ segir Bogi í samtali við Markaðinn.
Miklar sveiflur yfir lengri tíma
Sveiflur á gengi bréfa í Icelandair hafa verið tíðar undanfarin misseri. Ástæðan fyrir miklum sveiflum á gengi bréfa félagsins á undanförnum mánuðum má að miklu leyti rekja til tíðinda af WOW air og rekstrarerfiðleikum Icelandair, sem gaf út afkomuviðvaranir á síðasta ári þegar ljóst var að áætlanir voru ekki að fara að standast.
Markaðsvirði Icelandair hrundi til að mynda niður um 16 prósent eftir að uppgjör félagsins var birt snemma í febrúar, en félagið tapaði alls 6,7 milljörðum króna á síðasta ári. Eigið fé Icelandair var 56,5 milljarðar króna í lok síðasta árs en markaðsvirði félagsins við opnum markaða í dag var einungis 39,8 milljarðar króna. Gera má ráð fyrir því að um tæplega fjórir milljarðar króna hafi skafast af virðinu það sem af er degi.
Markaðsvirði Icelandair fór yfir 180 milljarða króna í apríl 2016 og því hefur virði félagsins dregist saman um rúmlega 140 milljarða króna á tæplega þremur árum.