Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur tilkynnt hverjir skipa verkefnahóp á vegum ráðuneytisins sem á að vinna að gerð kvikmyndastefnu stjórnvalda sem gilda á frá 2020-2030. WIFT, félag kvenna í kvikmyndum og sjónvarpi, sendu frá ályktun fyrr í vikunni þar sem gagnrýnt var að í hópnum væru aðeins tvær konur en sjö karlar. Félagið krafðist þess að helmingur verkefnahópsins yrði skipaður konum og að í hópnum yrði að minnsta kosti ein kona sem starfi við kvikmyndagerð. Verkefnahópur ráðuneytisins er nú skipaður sex konum og sex körlum
Jöfn kynjahlutföll í hópnum
Í tilkynningu ráðuneytisins segir að verkefnahópur hafi verið skipaður á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytisins til þess að vinna að gerð kvikmyndastefnu sem gilda á frá 2020-2030. Þetta er í fyrsta sinn sem stjórnvöld móta heildstæðu stefnu og aðgerðaáætlun á grunni hennar, sem nær yfir hlut kvikmynda í menningu þjóðarinnar, menntun í kvikmyndagerð á öllum skólastigum, miðlun íslensks kvikmyndaefnis og stuðning við framleiðslu kvikmynda. Samkvæmt tilkynningunni mun hópurinn vinna náið með hagsmunaaðilum í kvikmyndagerð á Íslandi við mótun stefnunnar en ráðgert er að hópurinn skili tillögum sínum fyrir júnílok á þessu ári.
Kjarninn fjallaði um ályktun WIFT í gær. Félagið gagnrýndi það harðlega að ekki hafði verið fylgt jafnréttisstefnu stjórnvalda við skipun hópsins. Auk þess gagnrýndi félagið að hvorug þeirra kvenna sem skipaður voru fyrst í hópinn störfuðu við fagið. Því krafðist félagið að í verkefnahóp ráðuneytisins væri að minnsta kosti ein kona sem starfaði við kvikmyndagerð og að helmingur hópsins yrði skipaður konum. Nú hefur hópur ráðuneytisins verið stækkaður úr níu manns í tólf og nú skipa konur helming hópsins.
Verkefnahópinn skipa nú Dagur Kári Pétursson, leikstjóri og formaður Samtaka kvikmyndaleikstjóra, Ása Helga Hjörleifsdóttir, leikstjóri og félagi í WIFT, Áslaug María Friðriksdóttir, formaður Kvikmyndaráðs, Baldur Sigmundsson, sérfræðingur í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Einar Karl Birgisson, framkvæmdastjóri, Friðrik Þór Friðriksson, kvikmyndaleikstjóri og fulltrúi Kvikmyndaráðs, Fríða Björk Ingvarsdóttir, rektor Listaháskóla Íslands , Grímar Jónsson, framleiðandi, Hanna Katrín Friðriksson, alþingismaður, Jóna Pálsdóttir, sérfræðingur í mennta- og menningarmálaráðuneytiKristinn Þórðarson, formaður Samtaka íslenskra kvikmyndaframleiðenda og fulltrúi Samtaka iðnaðarins og Margrét Örnólfsdóttir, formaður Félags leikskálda og handritshöfunda