Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun tillögu utanríkisráðherra um að leggja fyrir Alþingi þingsályktunartillögu um innleiðingu þriðja orkupakkans. Í ályktuninni felst að þær reglur sem eiga við um flutning raforku yfir landamæri eru innleiddar með þeim lagalega fyrirvara að þær komi ekki til framkvæmda nema að Alþingi heimili lagningu raforkustrengs. Þá þarf jafnframt að taka á nýjan leik afstöðu til þess hvort reglurnar standist stjórnarskrá.
Í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu er tekið sérstaklega fram að sé sameiginlegur skilningur íslenskra stjórnvalda og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins að stór hluti ákvæða þriðja orkupakkans gilda ekki eða hafi neina raunhæfa þýðingu fyrir Ísland á meðan enginn raforkusæstrengur er til staðar á innri raforkumarkað ESB. Jafnframt kemur fram í tilkynningunni að gert sé ráð fyrir að Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, leggi þingsályktunartillöguna fyrir Alþingi fyrir lok mánaðarins.
Skiptar skoðanir um þriðja orkupakkann
Ljóst er að þriðji orkupakkinn er orðin að heitu pólitísku máli hér á landi en skiptar skoðanir eru um innleiðingu pakkans. Annars vegar eru það þeir sem hafa talað um að orkupakkinn sé framsal á fullveldi Íslands til Brussel en síðan þeir sem telja samninginn vera afar mikilvægan efnahag landsins og að pakkinn sé í raun frekar til þess fallinn að styrkja fullveldi og sjálfstæði landsins frekar en hitt.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, er einn þeirra sem hefur varað við þriðja orkupakkanum og sagði í viðtali við RÚV óttast að með innleiðingu hans myndi ákvörðun um sæstreng og sölu raforku um hann fara úr höndum Íslendinga. Svipuð sjónarmið hafa heyrst innan úr Framsóknarflokknum en þar hefur miðstjórn flokksins ályktað á þann veg að það eigi að hafna orkupakkanum, og það má einnig segja um einstök félög innan flokksins, eins og til dæmis Framsóknarmenn í Reykjavík.
Viðhorf Samfylkingarinnar og Viðreisnar til Evrópusambandsins er þekkt, báðir flokkarnir hafa verið hlynntir því að ganga í Evrópusambandið og taka upp evru sem mynt, en þeir eru líka báðir hlynntir frekara alþjóðasamstarfi og áframhaldandi viðskiptasambands við Evrópu á grundvelli EES-samningsins. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar sagði í viðtali í sjónvarpsþættinum 21 í nóvember í fyrra að búið væri að búa til einhvern strámann úr einhverju sem engin ógn er í. Hún sagði þriðja orkupakkann fela í sér aukna neytendavernd, afnám hindrana, stuðli að frjálsum viðskiptum og undirstriki hvað samstarfið um Evrópska efnahagssvæðið snúist um.
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, sagði í sama þætti að Íslandi geti ekki bara valið það sem landið vilji úr EES-samningum, en látið annað eiga sig. Enn fremur sagði hann að það kæmi vel til greina að stjórnarandstaðan komi þeim hluta stjórnarinnar sem vilji klára innleiðingu þriðja pakkans til bjargar ef með þurfi, þótt það verði ekki án skilyrða.
Afstaða Vinstri grænna er hins vegar óljósari en stefna flokksins hefur lengi verið að best sé fyrir Ísland að standa fyrir utan Evrópusambandið. Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður flokksins, lét þó hafa eftir sér að mikið af rangfærslum hafi fengið að stýra umræðunni um orkupakkann, og að það kunni aldrei góðri lukku að stýra.
Sjálfstæðisflokkurinn klofinn
Skiptar skoðanir eru um þriðja orkupakkann á milli þingflokka en einnig eru skiptar skoðanir innan flokka og þá sérstaklega innan raða Sjálfstæðisflokksins. Haldinn var fjölmennur fundur í Valhöll í lok ágúst á síðasta ári en á fundinum var þriðji orkupakkinn til umfjöllunar. Það voru hverfafélög Sjálfstæðisflokksins í Smáíbúða-, Bústaða- og Fossvogshverfi og Hlíða- og Holtahverfi í Reykjavík sem stóðu fyrir fundinum. Eftir fundinn sendi fundurinn frá sér ályktun þar sem skorað var „eindregið á forystu Sjálfstæðisflokksins að hafna þriðja orkupakka Evrópusambandsins á þeim grunni að hann stangast á við ákvæði stjórnarskrárinnar, opnar Evrópusambandinu leið til yfirráða yfir einni helstu auðlind Íslands og hækkar verð á raforku og afleiðingar til langs tíma eru óvissar.“
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, iðnaðar-, dómsmála-, ferðamála- og nýsköpunarráðherra, hefur svarað þessum sjónarmiðum sem komu fram á fundinum, um að orkupakkinn feli í sér freklegt framsal á fullveldi þjóðarinnar, sem rangindum. Hún hefur meðal annars vitnað til lögfræðiálita sem unnin voru af hennar beiðni þar sem fram kemur að Ísland myndi stjórna sínum orkuauðlindum alveg óháð þriðja orkupakkanum. Ekki virðist það þó duga til að eyða efasemdunum innan flokksins.
Hörð átök fram undan
Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins og áhrifamaður í Sjálfstæðisflokknum í áratugi, segir í pistli á vefsíðu sinni í gær að fram undan séu hörð átök innan Sjálfstæðisflokksins um þriðja orkupakkann. Hann segir að sennilega verði átök innan Framsóknarflokksins en að staðan innan Vinstri grænna sé hins vegar óljósari.
Hann segir að það hafi komið í ljós síðastliðið haust að grasrótin innan Sjáflstæðisflokksins á höfuðborgarsvæðinu sé ekki tilbúin að taka því þegjandi að þingmenn flokksins taki þátt í því að samþykkja málið. Styrmir segir að ef frumvarpið verði lagt fram þá sé ekki ólíklegt að forystumenn stjórnmálaflokkanna muni leggja áherslu á að „keyra málið“ í gegnum þingið á mjög skömmum tíma
Styrmir segir jafnframt að þeir þingmenn flokksins sem greiði atkvæði með orkupakkanum muni missa traust flokksmanna með „afgerandi hætti“. Verði þeir þess ekki varir á næstu vikum munu þeir finna það skýrt og greinilega í prófkjörum vegna næstu alþingiskosninga. „Hér er nefnilega ekki á ferð venjuleg pólitískt álitaefni heldur grundvallarmál, sem varðar fullveldi Íslands og yfirráð yfir einni af helztu auðlindum landsins,“ segir Styrmir. Enn fremur segir hann að á næsta landsfundi muni afleiðingarnar koma fram í „harkalegum deilum“ í umræðum um málið og auk þess við kjör forystumanna. Styrmir segir jafnframt að þá sé ekki ólíklegt að umræður hefjist fyrir alvöru um stofnun sérstaks Sjálfstæðisfélag um fullveldi Íslands sem hefur stöku sinum verið reifað á undanförnum mánuðum.
Styrmir segir að átök af þessu tagi muni óhjákvæmilega koma fram í fylgi floksins en í ljósi þess að fylgi flokksins virðist komið niður í fjórðung megi flokkurinn alls ekki við meira fylgistapi. „Á að trúa því að þingmenn vilji kalla þessi ósköp yfir þann flokk, sem hefur hafið þá til vegs á Alþingi og í ríkisstjórn?“ segir Styrmir að lokum.
Hvað felst í þriðja orkupakkanum?
Fyrsta raforkutilskipun ESB er frá 19. desember 1996 en frá þeim tíma hefur raforka verið skilgreind eins og hver önnur vara á innri markaði ESB. Tilskipunin var innleidd hér á landi með raforkulögum. Annar orkupakkinn var síðan tekinn inn í EES samninginn 2005. Íslensk stjórnvöld gerðu fyrirvara sem hlutu samþykki á EES-vettvangi og var annar orkupakkinn innleiddur hér með breytingum á raforkulögum árið 2008.
Evrópusambandið innleiddi síðan þriðja orkupakkann árið 2009. Alþingi var síðan kynnt málið árið 2010 og fóru fram viðræður milli embættismanna og þingmanna sem leiddu meðal annars til þess að á EES-vettvangi var árið 2017 fallist á svonefnda tveggja stoða lausn gagnvart EFTA/EES-ríkjunum: Noregi, Íslandi og Liechtenstein. Af hálfu íslenskra stjórnvalda er slíkrar lausnar krafist vegna skilyrða sem sett voru strax árið 1993 í nafni fullveldis. Sameiginlega EES-nefndin tók ákvörðun árið 2017 um að innleiða ætti þriðja orkupakkann í EES-samninginn. Orkupakkinn verður þó aðeins innleiddur hér á landi með samþykki alþingis.
Þegar talað er um hinn svonefndi þriðji orkupakki er einkum vísað til nokkurra grundvallaratriða fyrir orkumarkaðinn innan Evrópusambandsins og á EES-svæðinu. Í fyrsta lagi er það tilskipun sameiginlegar reglur fyrir innri markað fyrir raforku. Í öðru lagi er það tilskipun um sameiginlegar reglur fyrir jarðgas. Í þriðja lagi er það reglugerð um að koma á fót stofnun um samstarf eftirlitsaðila á orkumarkaði. Sú stofnun mun hafa það verkefni öðrum fremur að skera úr deilumálum sem vakna, og styðja við eftirlit með orkumörkuðum í aðildarlöndunum.
Í fjórða lagi er það reglugerð um aðgang að raforkuneti yfir landamæri og í fimmta lagi er það reglugerð um aðgang að jarðgasneti yfir landamæri. Eins og sést af þessum grundvallaratriðum þá varðar þriðji orkupakkinn fyrst og síðast aðstæður eins og þær eru víða í Evrópu, þar sem raforkukerfi þjóða er tengd, og er raunar lagt upp með það inn í framtíðina að tengja þau enn frekar. Meðal annars til að tryggja betri nýtingu á orku og ýta undir vistvænni orkugjafa. Ekki síst af þessum sökum er verið að leggja sæstrengi og byggja upp jarðgasleiðslur. Ísland hefur mikla sérstöðu hvaða orkuauðlindir varðar, en stærstu kaupendur raforkunnar á Íslandi eru álverin í landinu. Þau nota um 80 prósent af raforkunni meðan heimili og önnur fyrirtæki nota afganginn. Ísland er með einangrað raforkukerfi, sem ekki er tengt við Evrópu með sæstreng.
Stór hluti orkupakkans hafi enga raunhæfa þýðingu fyrir Ísland á meðan enginn raforkusæstrengur er til staðar
Þann 20. mars síðastliðinn ræddu þeir Guðlaugur Þór og Miguel Arias Cañete, orku- og loftslagsmálastjóri Evrópusambandsins, um þriðja orkupakkann með hliðsjón af aðstæðum hérlendis. Í fréttatilkynningu utanríkisráðuneytsins kemur fram að stór hluti ákvæða hans, þ.e. þau sem varða viðskipti og grunnvirki fyrir raforku yfir landamæri, gilda ekki eða hafi neina raunhæfa þýðingu fyrir Ísland á meðan enginn raforkusæstrengur er til staðar á innri raforkumarkað ESB. Ennfremur er þar áréttað að ákvörðunarvald um raforkustrengi milli Íslands og innri raforkumarkaðar ESB liggi alfarið hjá íslenskum stjórnvöldum.
„Ég hef tekið gagnrýni sem fram hefur komið vegna þriðja orkupakkans mjög alvarlega og því leitað ráðgjafar hjá virtustu sérfræðingum okkar á þessu sviði. Ég tel hafið yfir allan vafa að með þeirri lausn sem ég legg til á grundvelli þessarar ráðgjafar felst enginn stjórnskipunarvandi í upptöku og innleiðingu þriðja orkupakkans í íslenskan rétt. Með því að útiloka stjórnskipulega óvissu hefur stærstu hindruninni verið rutt úr vegi fyrir innleiðingu og upptöku þriðja orkupakkans. Í þessu sambandi skiptir líka afar miklu máli sá sameiginlegi skilningur sem fram kom í viðræðum okkar orkumálastjóra Evrópusambandsins um þá sérstöðu sem Ísland nýtur gagnvart sameiginlegum orkumarkaði. Nú hafa skapast forsendur til að taka umræðuna á þingi um hvað raunverulega felst í orkupakkanum,“ segir Guðlaugur Þór í tilkynningunni.