Umsækjendur sem óskuðu aðstoðar umboðsmanns skuldara vegna fjárhagsvanda fjölgaði um 6,5 prósent í fyrra. Alls bárust 1.397 umsóknir til embættsins árið 2018 á móti 1.311 umsóknum árið 2017. Í tilkynningu frá embættinu segir að nauðsynlegt sé að grípa til aðgerða í ljósi vaxandi vanda vegna skyndilána en í fyrra var hlutfall skyndilána 22 prósent af heildar fjárskuldbindingu þeirra einstaklinga sem leituðu til embættisins.
Umboðsmaður skuldara leggur því til aðgerðir til að spyrna við þessari þróun. Þar á meðal að kannað verði að setja skorður á markaðssetningu skyndilán, að sett verði á fót miðlægur skuldagrunnur og að tryggð verði fjármálafræðsla barna og ungmenna.
Vaxandi fjöldi ungs fólks í vanda
Umboðsmaður skuldara skilgreinir skyndilán sem lán sem tekin eru á vefsíðum eða með smáforritum í gegnum farsíma. Lánin eiga það sameiginlegt að einfalt er að sækja um þau og þau eru afgreidd afar skjótt. Bæði getur verið um að ræða lán sem tekið er samhliða kaupum á vöru eða þjónustu en einnig lán þar sem ákveðin fjárhæð er lögð inn á reikning lántaka.
Samkvæmt embættinu eiga þeir einstaklingar sem leita sér aðstoðar það sameiginlegt að hafa tekið fjölda skyndilána á stuttum tíma og komið sér í töluverðar skuldir. Á árinu 2018 var hlutfall skyndilána 22 prósent af heildar fjárskuldbindingu þessara einstaklinga.
Þá fjölgaði mest umsækjendum sem voru á aldrinum 18 til 29 ára á milli ára eða úr 23 prósentum árið 2017 í 27,3 prósent árið 2018. Embættið segir það verulegt áhyggjuefni að enn skuli fjölga í hópi umsækjenda á þessum aldri. Að mati umboðsmanns skuldara er því mikilvægt að kannað verði hvort hægt sé að setja skorður við því hvernig þessi þjónusta er markaðssett. En gagnrýnt hefur verið auglýsingum skyndilána er beint að miklum mæli að yngri kynslóðinni með áherslu á auðvelt aðgengi. Embættið bendir á að í Noregi hafa til dæmis verið settar strangar reglur um hvernig auglýsa má þjónustu sem þessa.
Miðlæg skuldaskrá
Í tilkynningunni segir að ljóst sé að einstaklingar geti auðveldlega tekið mörg lán á stuttum tíma hjá ólíkum þjónustuaðilum og þannig skuldsett sig langt umfram greiðslugetu. Því telur umboðsmaður skuldara að með því skrá skuldastöðu einstaklinga væri hægt að koma í veg fyrir að sami einstaklingur taki mörg lán hjá ólíkum aðilum með ofangreindum afleiðingum. Með aðgangi að slíkri miðlægri skrá gætu þeir sem veita skyndilán betur metið lánshæfi umsækjenda eins og kveðið er á um í lögum um neytendalán. Slík skráning myndi auk þessi veita yfirsýn yfir umfang útlána af þessu tagi sem ekki er fyrir hendi í dag.
Jafnframt eru þeir sem taka skyndilán í meiri áhættu að lenda í alvarlegum greiðsluerfiðleikum. Því telur umboðsmaður skuldara að það þurfi að tryggja að einstaklingar hafi forsendur til að taka upplýstar ákvarðanir í fjármálum. Því þurfi mennta- og velferðarkerfis, fjármálafyrirtækja og fleiri aðila að vinna saman til að tryggja samræmda fjármálafræðslu barna og ungmenna og að sú fræðsla þurfi að byrja snemma. „Sameiginlegt markmið okkar ætti að vera að koma í veg fyrir að ungt fólk hefji sitt fjárhagslega sjálfstæða líf með neysluskuldir á bakinu.“ segir í tilkynningunni.
Skoðað verði hvort að takmarka eigi beina og ágenga markaðssetningu
Starfshópur um endurskoðun á starfsemi smálánafyrirtækja skilaði ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra skýrslu og tólf tillögum að aðgerðum í lok febrúar. Starfshópurinn taldi ekki þörf á að lánastarfsemi yrði gerð leyfisskyld þar sem það gæti hamlað nýsköpun og dregið úr samkeppni. Hópurinn lagði þó til aðgerðir til að vernda neytendur gegn ólöglegri smálánastarfsemi.
Í skýrslu starfshópsins segir að mörg smálánafyrirtækja, sem lagt hafa starfsemi sína niður hér á landi, þjónusta nú íslenskar neytendum í gegnum erlenda lögaðila. Í skýrslunni segir að ætla megi að það fyrirkomulag megi rekja til ófrávíkjanlegra reglna um hámark árlegrar hlutfallstölu kostnaðar og sé því enn ein leiðin, af mörgum, til að komast fram hjá fyrrgreindu kostnaðarþaki. Starfshópurinn lagði því til að skerpt verði á því hvers lands lög gilda þegar smálán eru veitt yfir landamæri. Hópurinn lagði auk þess til að gerðar verði kröfur um aukna upplýsingagjöf lánveitenda sem ekki eru eftirlitsskyldir til eftirlitsaðila. Jafnframt verði lánveitendum sem ekki eru leyfisskyldir gert óheimilt að veita neytendalán nema þeir hafi áður skráð starfsemina með viðeigandi hætti hjá eftirlitsaðila.
Starfshópurinn lagði einnig til að skoðað verði hvort að ástæða sé til að birta neytenda alltaf niðurstöðu lánhæfismats áður en hann tekur lán þannig að hann geri sér betur grein fyrir áhættunni sem fylgir lántökunni. Auk þess verði eftirlitsaðilum með innheimtufyrirtækjum gert að kanna sérstaklega hvort neytendum séu veittar rangar eða villandi upplýsingar sem séu mikilvægar til að unnt sé að taka afstöðu til krafna.
Hópurinn lagði einnig til líkt og umboðsmaður skuldara að skoðað yrði hvort að ástæða sé til að takmarka beina og ágenga markaðssetningu á fjarskiptamiðlum. Að auki verði aukin áhersla lögð á kennslu fjármálæsis í grunnskólum og framhaldsskólum. Í tilkynningu frá ráðuneytinu segir að af hálfu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis verður unnið áfram með tillögur starfshópsins í samráði við þar til bæra aðila og stofnanir.