Þingmenn breska þingsins samþykktu í gærkvöld að þingið myndi ráða ferðinni í næstu atkvæðagreiðslum um hver næstu skref verða í Brexit-deilunni. Þrír ráðherrar úr ríkisstjórn Theresu May sögðu af sér til að kjósa með tillögunni, sem lögð var fram af þingmanni Íhaldsflokksins. 329 þingmenn greiddu atkvæði með tillögunni en 302 voru á móti. Frá þessu er greint á BBC.
Mögulega kosið um aðra þjóðaratkvæðagreiðslu
Niðurstaða atkvæðagreiðslunnar þykir mikill ósigur fyrir May og ríkisstjórn hennar en hún þýðir að þingmennirnir hafa tekið yfir dagskrávald neðri málstofu breska þingsins. Í atkvæðagreiðslunum á miðvikudaginn verður þingmönnunum gert kleift að kjósa um ólíkar tillögur að næstu skrefum í Brexit-deilunni. Samkvæmt BBC þykir líklegt að greidd verði atkvæði um „vægari“ útgöngu úr Evrópusambandinu, tollabandalag við ESB og jafnvel aðra þjóðaratkvæðagreiðsla um Brexit.
Atkvæðagreiðslurnar verða þó ekki bindandi en þeim er ætlað að finna út hver raunverulegur vilji þingsins er. Theresa May sagðist í kjölfar niðurstöðunnar ekki getað lofað því að ríkisstjórnin myndi fara eftir þeim tillögum sem þingið samþykkir í atkvæðagreiðslunum.
27 ráðherrar hafa nú sagt af sér vegna Brexit
Þrír ráðherrar sögðu af sér til að greiða atkvæði með tillögunni, þeirra á meðal er Richard Harrington, viðskiptaráðherra Bretlands. Í heild hafa nú 27 ráðherrar sagt af sér vegna Brexit
Keir Starmer, skuggaráðherra Brexit-mála hjá Verkamannaflokknum, kallaði ósigur ríkisstjórnar May niðurlægingu en þrjátíu þingmenn Íhaldsflokksins greiddu atkvæði með tillögunni. Hann skrifaði í Twitter-færslu að forsætisráðherrann hafi nú misst stjórn á eigin flokki, ráðuneyti og öllu Brexit-ferlinu. Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, hrósaði þinginu fyrir ákvörðun sína og sagði jafnframt að ríkisstjórnin yrði að taka niðurstöður atkvæðagreiðslunnar alvarlega.
Frestun Brexit fer eftir atkvæðagreiðslunni
Leiðtogar Evrópusambandsins hafa samþykkt áætlun um að fresta Brexit fram yfir 29. mars næstkomandi, sem er dagsetningin sem hingað til hefur verið miðað við. Samþykkt var að veita frest til 22. maí ef þingið samþykkir Brexit-samning í vikunni en ef ekki þá mun Evrópusambandið veita bretum frest til 12. apríl.