Í fyrra ferðuðust 83 prósent landsmanna utan landsteinanna en það er hæsta hlutfall landsmanna frá árinu 2009. Þetta kemur fram í könnun um ferðalög Íslendinga á vegum Ferðamálastofu. Utanlandsferðum Íslendinga hefur farið fjölgandi á undanförnum árum en meðalfjöldi utanlandsferða í fyrra voru 2,8 ferðir. Á síðustu árum hefur umræðan um gífurlega koltvísýringslosun flugvéla aukist og hefur nú orðið flugskömm verið notað til að lýsa samviskubiti ferðalanga vegna loftlagsáhrifa sífjölgandi flugferða.
Gríðarlega aukning í utanlandsferðum á síðustu árum
Ferðamálastofa hefur frá árinu 2009 framkvæmt könnun um ferðalög Íslendinga, þar sem spurt er um ferðalög á nýliðnu ári og framtíðaráform um ferðalög. Árið 2018 sögðust 83 prósent svarenda hafa farið í utanlandsferð, það er marktæk aukning milli ára en árið 2017 sögðust 78 prósent hafa farið utan. Hlutfall Íslendinga sem ferðast utan hefur farið hratt fjölgandi á síðustu árum en árið 2009 sögðust 44 prósent Íslendinga hafa farið í utanlandsferðir.
Jafnframt hefur fjöldi utanlandsferða á hvern einstakling farið vaxandi en alls var meðalfjöldi utanlandsferða 2,8 í fyrra. Alls sögðust 12 prósent svarenda hafa farið fimm sinnum eða oftar til útlanda árið 2018, 12,2 prósent svarenda fóru fjórum sínnum til útlanda og 20,7 prósent fóru í þrjár ferðir. Alls fóru 44,9 prósent svarenda í fleira en þrjár ferðir í fyrra.
Í könnunni var jafnframt spurt um komandi ferðalög á árinu 2019 en samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar sögðust fleiri að fara til útlanda í ár en í fyrra. Alls sögðust 52,6 prósent svarenda ætla í borgarferð erlendis í ár, 43,5 prósent sögðust ætla í sólarlandaferð og 34,7 prósent ætla í heimsókn til vina að ættingja erlendis.
Losunin fyrst og fremst frá flugi
Í heildina hefur losun Íslands verið að aukast á síðustu árum en alls var heildarlosun gróðurhúsalofttegunda 4.755 kílótonn af CO2 ígíldum, án losunar frá LULUCF árið 2017. Það er 2,5 prósent aukning í losun frá árinu 2016 og 32,1 prósent aukning frá árinu 1990. Stór hluti af þeirri aukningu er vegna aukinnar losunar frá einkennandi greinar ferðaþjónustunnar á Íslandi en hún hefur ríflega fimmfaldast frá árinu 1995 og nær þrefaldast frá árinu 2012.
Í einkennandi greinum ferðaþjónustu kemur losunin fyrst og fremst frá flugi en samkvæmt úttekt Umhverfisstofnun jókst losun frá flugi til og frá Íslandi um 13,2 prósent milli áranna 2016 og 2017. Árið 2016 var losunin 718.624 tonn af koltvísýringi en árið 2017 813.745 tonn. Losunin sem hér getur um, er þó eingöngu hluti af heildarlosun af flugi til og frá landinu, þar sem hún nær eingöngu til losunar innan EES-svæðisins. Þannig er Ameríkuflug, eða flug til ríkja utan EES- eða ESB-ríkja ekki inni í þessari tölu og má því gefa sér að hún sé þó nokkuð hærri.
Fólk síður til í að fækka flugferðum
Kannanir hafa bent til þess að fólk er síður tilbúið að breyta ferðavenjum sínum til að minnka vistsportið sitt. Í niðurstöðum Umhverfiskönnunar Gallups frá því í janúar má sjá að rúmlega helmingur landsmanna sögðust hafa breytt neysluvenjum sínum í daglegum innkaupum gagngert til þess að minnka umhverfisáhrif á síðustu tólf mánuðum. Auk þess höfðu tæplega tveir af hverjum þremur breytt hegðun sinni fyrir umhverfið. Aftur á móti höfðu fæstir breytt ferðavenjum sínum á einhvern hátt til þess að minnka umhverfisáhrif af ferðamáta sínum en 40,8 prósent sögðust ekkert hafa breytt ferðavenjum sínum á síðustu 12 mánuðum. Um 20 prósent sögðust hafa breytt ferðavenjum sínum nokkuð og 5,2 prósent sögðust hafa breytt þeim mikið.
Því virðist að fólk sé frekar til í að minnka loftlagsáhrif með breyttri neysluhegðun fremur en breyttri ferðahegðun. Í Svíþjóð hefur að undanförnu skapast mikil umræða um mengun vegna flugferða og hafa svíar byrjað að nota myllumerkið #jagstannarpåmarken eða ég held mig á jörðinni til að vekja athygli á málefninu. Þar á meðal er sænska aðgerðarsinninn Greta Thunberg en hún hefur vakið athygli með yfirlýstri ákvörðun sinni um að hætta að ferðast með flugvélum.
I’m on my way home now from Brussels to Stockholm. It’s a long way when you travel by electric car... #istayontheground #climate #jagstannarpåmarken #klimat pic.twitter.com/sdaJskrzrZ
— Greta Thunberg (@GretaThunberg) October 7, 2018