Rúmlega þrjú hundruð börn, sem sótt höfðu um alþjóðlega vernd, hafa yfirgefið Ísland í kjölfar ákvörðunar stjórnvalda þess efnis að synja þeim um efnismeðferð eða synja þeim um vernd í kjölfar efnislegrar meðferðar á tímabilinu 13. mars 2013 til 10. apríl 2019 eða frá því að lög um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins tóku gildi.
Þetta kemur fram í svari dómsmálaráðherra, Þórdísar Kolbrúnar R. Gylfadóttur, við fyrirspurn frá Jóni Þór Ólafssyni um börn sem vísað hefur verið úr landi.
Í svarinu kemur jafnframt fram að af þessum börnum hafi mikill meiri hluti verið í fylgd með foreldrum sínum. Þá segir að afar umfangsmikið verk sé að gera grein fyrir rökstuðningi í hverju og einu máli enda sé hvert mál metið með tilliti til aðstæðna hvers og eins.
Eftirfylgni með börnunum fellur utan valdsviðs íslenskra stjórnvalda
„Börn eins og aðrir sem sækja um alþjóðlega vernd á Íslandi fá skriflega rökstudda ákvörðun í máli sínu frá Útlendingastofnun og eftir atvikum kærunefnd útlendingamála. Við framkvæmd laga um útlendinga er lögð áhersla á mikilvægi þess að tryggja einingu fjölskyldunnar og almennt hefur verið lagt til grundvallar að hagsmunum barns sé best borgið með því að hún sé tryggð,“ segir í svari ráðherra.
Þá kemur fram að Útlendingastofnun, og eftir atvikum kærunefnd útlendingamála, meti hvað barni sé fyrir bestu þegar tekin er ákvörðun um alþjóðlega vernd hér á landi. Við það mat beri að líta til möguleika barns á fjölskyldusameiningu, öryggis þess, velferðar og félagslegs þroska. Hafi verið komist að þeirri niðurstöðu að barn uppfylli ekki skilyrði þess að fá alþjóðlega vernd hér á landi og að hagsmunum barnsins sé ekki stefnt í hættu með því að það fylgi foreldri eða foreldrum sínum aftur til heimalands þeirra eða annars ríkis sem þau hafa heimild til dvalar sé tekin ákvörðun um að vísa barninu frá landinu í fylgd foreldris eða foreldra þess.
Jón Þór spurði jafnframt hvaða upplýsingar stjórnvöld eða stofnanir þeirra hefðu um afdrif þessara barna til að meta hvort brottvísunin hefði verið barni fyrir bestu. Í svarinu kemur fram að frekari eftirfylgni með börnum eftir að þau hafa verið flutt frá landinu falli utan valdsviðs íslenskra stjórnvalda.