Framlög Íslands til varnarmála árið 2019 eru 2.185 milljónir króna miðað við 1.592 milljónir króna árið 2017. Þetta kemur fram í skýrslu utanríkisráðherra um utanríkismál og alþjóðamál sem lögð var fyrir Alþingi í apríl 2019.
Í svari frá utanríkisráðuneytinu við fyrirspurn Kjarnans kom fram að auknar fjárheimildir málaflokksins megi skýra að mestu af fjórum verkefnum: 127 milljónir króna voru veittar til endurnýjunar á ratsjárkerfi og stjórnstöðvarkerfi. Alls 60 milljónir króna fóru í að efla samningsbundinn gistiríkjastuðning og 50 milljónir króna megi svo rekja til reglubundinna varnaræfinga í samræmi við varnaráætlun Atlantshafsbandalagsins. Að lokum voru 35 milljónir veittar til samningsbundins viðhalds varnarmannvirkja.
Stærstur hluti fjármagnsins fer til almenns reksturs Landhelgisgæslunnar og Keflavíkurflugvölls eða 1.519 milljónir króna. 217 milljónir króna fara í samstöðuaðgerðir.
Stjórnarflokkar ósammála um varnarmál
Vinstri græn eru andvíg veru Íslands í hernaðarbandalagi og segir skýrt í stefnu þeirra: „Ekki á að leyfa heræfingar í landinu eða innan lögsögu þess. Ísland og íslenska lögsögu á að friðlýsa fyrir umferð með kjarnorku-, sýkla- og efnavopna í lofti, á láði og legi.“
Í stefnu Sjálfstæðisflokksins segir hins vegar að aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamningur Íslands og Bandaríkjanna séu „forsendur þess að öryggi landsins sé tryggt“.