Fjármálaeftirlitið og Seðlabanki Íslands sameinast í eina stofnun frá og með næstu áramótum. 32 þingmenn greiddu með breytingunni, 15 gegn, tíu greiddu ekki atkvæði og voru sex þingmenn fjarverandi.
Breytingar munu ekki vera á verkefnum stofnananna heldur lúta breytingarnar að sameiningu verkefna hjá einni stofnun, fyrirkomulagi ákvarðanatöku og stjórnskipan, að því er kemur fram í fréttatilkynningu Forsætisráðuneytisins.
Í tilkynningunni segir að lagasetningin eigi sér langan aðdraganda, stjórnvöld hafi fengið ráðgjöf margra sérfræðinga undanfarin ár, auk þess sem skýrsla starfshóps skipaðan af forsætisráðherra 2017 hafi lagt fram 11 tillögur um umgjörð þjóðhagsvarúðar, endurbætt verðbólgumarkmið og beitingu stjórntækja Seðlabankans.
Breytingartillaga samþykkt
Fjórtán þingmenn Sjálfstæðisflokksins, ellefu þingmenn Vinstri grænna, auk sjö þingmanna Framsóknarflokksins greiddu með tillögunni.
Frumvarpið var gagnrýnt úr ýmsum áttum og var eitt þeirra deilumála sem var undir þegar ríkisstjórnarflokkarnir reyndu að semja um þinglok við stjórnarandstöðuna. Á endanum náðist sátt um að samþykkja breytingartillögu minnihluta efnahags- og viðskiptanefndar í málinu sem samanstóð af Oddnýju G. Harðardóttur, þingmanni og þingflokksformanni Samfylkingarinnar, Smára McCarthy, þingmanni Pírata, og Þorgerði K. Gunnarsdóttur, þingmanni Viðreisnar og formanni flokksins.
Í breytingartillögunni fólst í fyrsta lagi að kröfur til hæfni fulltrúa í bankaráði Seðlabankans verði auknar, í öðru lagi að verkefni bankaráðs verði nánar skilgreind, í þriðja lagi að formennska fjármálaeftirlitsnefndar verði að jafnaði í höndum varaseðlabankastjóra fjármálaeftirlits í stað seðlabankastjóra, í fjórða lagi að fjallað skuli um árangur markmiða í ársskýrslu Seðlabankans, í fimmta lagi að fram skuli fara ytra mat á starfsemi Seðlabankans á fimm ára fresti og í sjötta lagi að innan tveggja ára frá gildistöku laganna skuli vinna skýrslu um reynsluna af starfi nefnda Seðlabankans með nánar tilgreindum hætti.