Staðalmyndir, frami kvenna í fyrirtækjum og ólík fjölskylduábyrgð hafa sérstaklega mikil áhrif á launamun kynjanna og stöðu kvenna í atvinnulífinu. Sú einstaka aðgerð sem fljótt hefði mikil áhrif væri að lengja tíma fæðingarorlofs feðra.
Þetta kemur fram í nýrri rannsókn Snjólfs Ólafssonar, Erlu S. Kristjánsdóttur, Láru Jóhannsdóttur og Þóru H. Christiansen sem birtist vorhefti Tímarits um viðskipti og efnahagsmál. Vefútgáfu tímaritsins má nálgast hér. Rannsóknin miðar að því að finna þætti sem áhrif á stöðu kynjanna í íslensku atvinnulífi.
Kynbundinn launamunur í VR var til að mynda 10 prósent árið 2018 og 11,3 prósent árið 2017.
Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar hefur bætt fæðingarorlof áhrif á jafnari fjölskylduábyrgð, bæði í gegnum brúun umönnunarbilsins og í gegnum jafnari töku fæðingarorlofs. Bætt fæðingarorlof hefur einnig áhrif á valdeflingu kvenna sem hefur áhrif á staðalmyndir, að því er kemur fram í rannsókninni. Jafnari fjölskylduábyrgð hefur svo áhrif á fyrirmyndir og staðalmyndir sem hefur áhrif á kynjaskiptingu starfa.
Staðalmyndir fjari út
Ein helsta stoðin í að jafna stöðu kynjanna í íslensku atvinnulífi er að staðalmyndir fjari út, að því er kemur fram í rannsókninni. Þá er mikilvægt að bæta fæðingarorlof og fyrirmyndir í samfélaginu.
Ákveðið hefur verið að lengja fæðingarorlof í tveimur áföngum á árunum 2020 og 2021. Fyrra skref aðgerðarinnar kveður á um að samanlagður réttur foreldra barna sem fæðast á árinu 2020 nemi 10 mánuðum. Í seinna skrefinu er svo rétturinn lengdur í tólf mánuði, en hann á við um foreldra allra barna sem fæðast þann 1. janúar 2021 eða síðar.
Rannsakendur telja að fleiri fyrirmyndir að konum í leiðtogastörfum væri ein breyta til þess að auka frama kvenna í fyrirtækjum sem stuðli einnig að jafnari hlutföllum í framkvæmdastjórnun og minnkar launamun kynjanna. Breyting á staðalmyndum myndi einnig leiða til aukinnar valdeflingar kvenna og þar með auka frama þeirra í fyrirtækjum.
Jafnari fjölskylduábyrgð minnkar kynbundinn launamun
Í rannsókninni er vísað til annarra rannsókna sem sýna að enn beri konur meginábyrgð á umönnun barna og heimilis, karlar séu fremur fyrirvinnur og konur í forstjórastöðum upplifi meiri ábyrgð á umönnun fjölskyldunnar en karlar í sömu stöðum. Enn fremur vinna karlar lengri vinnudag utan heimilis.
Rannsókn Maskínu frá árinu 2017 sýnir einmitt fram á að 39 prósent kvenna segjast sjá um heimilisstörf að mestu leyti.
Bætt öldrunarþjónusta myndi jafna fjölskylduábyrgð „vegna þess að konur axla að öllu jöfnu meiri ábyrgð á öldruðum foreldrum og jafnvel tengdaforeldrum en karlar sem hefði áhrif á stöðu þeirra á vinnumarkaði,“ skrifa rannsakendurnir í rannsókninni um þætti sem áhrif á stöðu kynjanna í íslensku atvinnulífi.
Jafnari fjölskylduábyrgð gæti þar af leiðandi leitt til minni kynbundins launamuns við ráðningu ef jöfn fjölskylduábyrgð þætti sjálfsögð.
Jafnlaunavottun jafnar stöðu kynjanna
Lögbinding jafnlaunavottunar jafnar stöðu kynjanna í atvinnulífinu þar sem hún stuðli að jafnari hlutföllum í framkvæmdastjórnun sem dregur úr launamuni kynjanna og að minna kynjuðu námsvali nemenda, að því er kemur fram í rannsókninni.
Rannsakendur benda á að laun í mörgum hefðbundnum kvennastörfum eru lægri en í karlastörfum sem fælir karla frá þeim. Rannsakendur taka sem dæmi mun launa leikskólakennara og tölvunarfræðinga.
Efling kynjafræðslu getur hjálpað
Rannsakendur benda á að hugarfarsbreyting í þjóðfélaginu sé nauðsynleg til þess að jafna stöðu kynjanna í atvinnulífinu. „Fjölmiðlar, einstaka stjórnendur og fjölmargir aðrir hafa sitt hlutverk í þessari vinnu, en stjórnvöld geta þó leikið lykilhlutverk. Lög um jafnlaunavottun er dæmi um slíkt og einnig er augljóst að breytingar á fæðingarorlofi sem leiddu til þess að feður myndu verja meiri tíma með ungabörnum gætu haft mikil áhrif,“ segir í rannsókninni.
Rannsakendur telja að stjórnvöld geti sem dæmi eflt kynjafræðslu og viðfangsefni í skólakerfinu til þess að jafna stöðu kynjanna í atvinnulífinu.
„Þáttur fyrirtækja og stjórnenda er einnig stór og sýnir áhrifaritið að atvinnulífið þarf að taka höndum saman við stjórnvöld og einstaklinga til að vinna að því að jafna stöðu kvenna og karla,“ skrifa rannsakendur.