„Fyrir utan hversu arfavitlaus þessi stefna er, skulu menn hafa í huga gegn hverjum hún beinist ekki. Nefnilega ekki neinni af öllum þeim konum sem stigu fram í Stundinni og þessum sama útvarpsþætti og lýstu – ekki síður – ógeðfelldu ofbeldi sem þær sættu af hendi þessi manns.“ Þannig hefst stöðuuppfærsla á Fecebook-síðu fjölmiðlamannsins Helga Seljan í dag.
Ástæða skrifanna eru fregnir þess efnis að Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi utanríkisráðherra og sendiherra, hafi stefnt Aldísi Schram dóttur sinni og Sigmari Guðmundssyni dagskrárgerðarmanni á RÚV fyrir meiðyrði.
Helgi telur að stefnan sé glórulaus og fyrst og fremst tilraun til pólitískrar leiksýningar Jóns Baldvins. „Og hefur ekkert með réttlætis- eða sannleiksást að gera. Ekki neitt. Heldur er þetta bara enn ein uppsetningin á þessu þrautleiðinlega skólaleikriti Skeggjabekksins; sem við erum einhverra hluta vegna alltaf og enn neydd til að sitja undir,“ skrifar Helgi.
Talar um hugleysi Jóns Baldvins
Hann segir þetta ef til vill sýna í leiðinni hugleysi Jóns Baldvins. Hann stefni dótturinni, sem hann hafi úthrópað fárveika á geðsmunum og þar með ómarktæka, þvert á álit sérfræðinga.
„En hann stefnir ekki hinum. Hann þorir því ekki, vitandi sem er að þá fá þær allar loksins áheyrn yfirvalda,“ segir Helgi.
Hann segir það jafnframt freistandi að stilla því þannig upp að Jón Baldvin velji vammlausa Garðbæinginn sem mótaðila frekar en götustrákinn að austan, en það sé trúlegast ofmat í götustráknum.
Ástæðan sé önnur.
„Alveg örugglega sótt í þá hundalógík stefnanda, ættaða frá Kremlarborg, að með því að stefna Sigmari sé hann í leiðinni að hefna upphafs þess að íslenskur fjölmiðill mannaði sig upp í að fjalla um þessi mál; þegar Þóra Tómasdóttir gerði það í Mannlífi. Sem er átakanlega langt seilst og vitlaust. En er samt ein tilrauna hans til að afvegaleiða og tortryggja eðlilega umfjöllun um þessi mál.
Og sú flétta fær hann til finnast hann rosa snjall,“ skrifar Helgi.
Fyrir utan hversu arfavitlaus þessi stefna er, skulu menn hafa í huga gegn hverjum hún beinist ekki. Nefnilega ekki...
Posted by Helgi Seljan on Friday, June 28, 2019
Jón Baldvin og Bryndís Schram, eiginkona hans, gáfu Magnúsi Geir Þórðarsyni, útvarpsstjóra RÚV, eina viku til að draga til baka „tilhæfulausar ásakanir, rangar fullyrðingar og meiðyrði“ í þeirra garð þann 13. febrúar síðastliðinn. Yrði útvarpsstjóri ekki við þeirri beiðni hyggðust Jón Baldvin og Bryndís stefna honum, auk starfsmönnum hans, sem og viðmælendum, fyrir rétt til þess að fá „meiðyrði, ranghermi og tilhæfulausar ásakanir, dæmdar dauðar og ómerkar.“ Auk þess yrði Ríkisútvarpinu gert skylt að bæti „þolendum þessarar ófræginarherferðar“ það tjón þau hefðu orðið fyrir að völdum RÚV.
Í grein þeirra hjóna sem birt var í Morgunblaðinu sama dag sökuðu þau dagskrágerðarmennina Sigmar Guðmundsson og Helga Seljan um tilhæfulausar ásakanir, rangar fullyrðingar og ærumeiðingar, fyrst í viðtali í Morgunútvarpinu Rás 2 í janúar og aftur í aðsendri grein Sigmars og Helga í Morgunblaðinu þann 8. febrúar síðastliðinn. Viðtalið á Rás 2 var við Aldísi Schram, dóttur Jóns Baldvins og Bryndísar. Þar sakaði Aldís föður sinn um að hafa farið fram á að hún yrði nauðungarvistuð á geðdeild í kjölfar ásakana í hans garð um kynferðislega áreitni og ofbeldi. Jón Baldvin gagnrýndi svo vinnubrögð Sigmars og Helga harðlega í aðsendri grein í Morgunblaðinu þann 7. febrúar og sagði það „háalvarlegt mál“ að fjölmiðill á borð við Ríkisútvarpið bæri á borð „falsfréttir“ af þessu tagi fyrir hlustendur sína.
Sigmar og Helgi svöruðu síðan ásökunum í grein Jón Baldvins í aðsendri grein í Morgunblaðinu daginn eftir, þann 8. febrúar. Í greininni segja þeir að viðtalið hafa átt fullt erindi við almenning. „Blaðamenn geta ekki í dag afgreitt sögu hennar sem „geðveiki“ eða „fjölskylduharmleik“. Fjöldi kvenna hefur staðfest ásakanir hennar í gegnum árin með því að stíga fram og segja frá hegðun Jóns Baldvins. Aldís styður mál sitt gögnum, svo sem sjúkraskýrslum, læknisvottorðum, lögregluskýrslum og skráningu, og svo sendiráðspappírum. Viðtalið við hana átti því fullt erindi við almenning og vonandi er sá tími liðinn að hægt sé að afgreiða upplifun þeirra sem glíma við andleg veikindi sem óráðshjal.“