Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi utanríkisráðherra og sendiherra, hefur stefnt Aldísi Schram dóttur sinni fyrir meiðyrði. Jafnframt hefur hann stefnt Sigmari Guðmundssyni fréttamanni og RÚV. Stundin hefur fengið þetta staðfest og birt frétt um málið á vefsíðu sinni í dag.
Jón Baldvin var mikið í samfélagsumræðunni í byrjun árs eftir að fjórar konur stigu fram opinberlega og töluðu um meint kynferðisáreiti hans í þeirra garð.
Jón Baldvin og Bryndís Schram, eiginkona hans, gáfu Magnúsi Geir Þórðarsyni, útvarpsstjóra RÚV, eina viku til að draga til baka „tilhæfulausar ásakanir, rangar fullyrðingar og meiðyrði“ í þeirra garð þann 13. febrúar síðastliðinn. Yrði útvarpsstjóri ekki við þeirri beiðni hyggðust Jón Baldvin og Bryndís stefna honum, auk starfsmönnum hans, sem og viðmælendum, fyrir rétt til þess að fá „meiðyrði, ranghermi og tilhæfulausar ásakanir, dæmdar dauðar og ómerkar.“ Auk þess yrði Ríkisútvarpinu gert skylt að bæti „þolendum þessarar ófræginarherferðar“ það tjón þau hefðu orðið fyrir að völdum RÚV.
Í grein þeirra hjóna sem birt var í Morgunblaðinu sama dag sökuðu þau dagskrágerðarmennina Sigmar Guðmundsson og Helga Seljan um tilhæfulausar ásakanir, rangar fullyrðingar og ærumeiðingar, fyrst í viðtali í Morgunútvarpinu Rás 2 í janúar og aftur í aðsendri grein Sigmars og Helga í Morgunblaðinu þann 8. febrúar síðastliðinn. Viðtalið á Rás 2 var við Aldísi Schram, dóttur Jóns Baldvins og Bryndísar. Þar sakaði Aldís föður sinn um að hafa farið fram á að hún yrði nauðungarvistuð á geðdeild í kjölfar ásakana í hans garð um kynferðislega áreitni og ofbeldi. Jón Baldvin gagnrýndi svo vinnubrögð Sigmars og Helga harðlega í aðsendri grein í Morgunblaðinu þann 7. febrúar og sagði það „háalvarlegt mál“ að fjölmiðill á borð við Ríkisútvarpið bæri á borð „falsfréttir“ af þessu tagi fyrir hlustendur sína.
Sigmar og Helgi svöruðu síðan ásökunum í grein Jón Baldvins í aðsendri grein í Morgunblaðinu daginn eftir, þann 8. febrúar. Í greininni segja þeir að viðtalið hafa átt fullt erindi við almenning. „Blaðamenn geta ekki í dag afgreitt sögu hennar sem „geðveiki“ eða „fjölskylduharmleik“. Fjöldi kvenna hefur staðfest ásakanir hennar í gegnum árin með því að stíga fram og segja frá hegðun Jóns Baldvins. Aldís styður mál sitt gögnum, svo sem sjúkraskýrslum, læknisvottorðum, lögregluskýrslum og skráningu, og svo sendiráðspappírum. Viðtalið við hana átti því fullt erindi við almenning og vonandi er sá tími liðinn að hægt sé að afgreiða upplifun þeirra sem glíma við andleg veikindi sem óráðshjal.“