Isavia lýsir yfir furðu sinni vegna niðurstöðu Héraðsdóms Reykjaness í dag í máli ALC. Segir Isavia niðurstöðuna vera í miklu ósamræmi við fyrri umfjöllun Landsréttar um málið, að því er kemur fram í fréttatilkynningu Isavia.
Í morgun lagði bandaríska leigufélagið ALC Isavia í Héraðsdómi Reykjaness. Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að ALC beri eingöngu að greiða þær skuldir sem hvíli á þotunni sjálfri en ekki allar skuldir WOW air við Isavia
Málið hefur farið fram og aftur innan dómskerfisins og er þetta í þriðja sinn sem málið fer fyrir héraðsdóm. Héraðsdómur komst áður að þeirri niðurstöðu að félaginu bæri ekki að greiða allar skuldir WOW, einungis þær skuldir sem hvíldu á þotunni. Isavia skaut úrskurðinum til Landsréttar og í millitíðinni lagði ALC nýja beiðni sem héraðsdómur vísaði frá, að því er kemur fram í frétt RÚV.
Í tilkynningu Isavia segir að í Landsréttur hafi lýst „með mjög skýrum hætti skoðun æðra dómsstigs á túlkun lagaákvæðsins.“
„Þá teljum við verulega ámælisvert að beiðni um frestun réttaráhrifa sé hafnað í ljósi þeirra fjárhagslegu hagsmuna sem undir eru. Frestun réttaráhrifa hefði haft óveruleg áhrif á ALC en hefði tryggt eðlilega meðferð jafn mikilvægs máls fyrir æðra dómsstigi. Með synjun Héraðsdóms Reykjaness á frestun réttaráhrifa er takmarkaður mjög möguleiki Isavia til að fá endanlegan úrskurð fyrir fjölskipuðum dómi,“ segir jafnframt í tilkynningu félagsins.
Fréttin hefur verið uppfræð.