Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, segir bandalagið munu bregðast ákveðið við og vera í varnarstöðu ef Rússar virði ekki tímamörkin til að fara eftir sáttmála um kjarnorkuflaugar. Sagði hann heiminn þurfa að vera tilbúinn undir fleiri rússneskar kjarnorkuflaugar. Þetta kemur fram í viðtali Stoltenberg við BBC.
Trump dró Bandaríkin úr sáttmálanum sem hafði verið í gildi frá árinu 1987 og bannaði meðaldrægar kjarnorkuflaugar. Trump sakaði Rússland um að fara ekki eftir sáttmálanum en Rússland hefur neitað ásökunum. Rússnesk stjórnvöld tilkynntu í kjölfarið að þau muni þróa nýtt vopnakerfi.
Segir NATO mikilvægt fyrir smáríki
Á fundi í Norræna húsinu í Reykjavík sem fór fram í júní sagði Stoltenberg að það sem ógni takmörkun vopna nú til dags væri að Rússland fari ekki lengur eftir sáttmálanum sem banni meðaldrægar flaugar. Hann lagði ríka áherslu á að viðhalda bandalaginu sé sérstaklega mikilvægt fyrir smáþjóðir líkt og Ísland.
Á fundinum sagði hann NATO nú þegar hafa aukið viðveru sína á Íslandi og í kringum Ísland. NATO ríki hafi til að mynda aukið fjölda heræfinga í Norður-Atlantshafi. Við sumar æfingarnar sé notast við íslenska innviði og samskiptatækni.
Rússar selja Tyrkjum hernaðargögn
Rússar seldu Tyrkjum S-400 varnarkerfi í síðustu viku, en Tyrkir eru meðlimir í NATO. Í kjölfarið hafa Bandaríkin lýst því yfir að þau muni taka Tyrkland úr F-35 herþotu áætlun sinni. Stoltenberg segir í viðtali við BBC málið vera alvarlegt því það skapi óeiningu á milli tveggja mikilvægra meðlima bandalagsins.