Fimm til sjö vísindamenn létust í dularfullri prófun á nýrri kjarnorkudrifinni flaug í Rússlandi. Rússnesk yfirvöld hafa lýst vísindamennina, sem voru sérfræðingar í kjarnorku, þjóðhetjur. Flaugin, sem var hönnuð til að komast fram hjá bandarískum loftvörnum, sprakk og olli geislun í kjölfarið.
Flaugin sprakk í Hvítahafi, norðan við borgina Arkhangelsk. Valentin Kostyukov, yfirmaður kjarnorkumiðstöðvar Rússlands, sagði í kjölfar slyssins að vísindamennirnir væru þjóðhetjur, jafnframt sem þeir yrðu heiðraðir ríkisverðlaunum eftir dauða sinn.
Hönnuð til að komast fram hjá bandarískum loftvörnum
Samkvæmt heimildum the New York Times telja bandarískir leyniþjónustumenn að flaugin sé hin svokallaða SSC-X-9 Skyfall flaug sem Vladimír Pútín, forseti Rússlands, hefur sagt að geti náð hvert sem er í heiminum. Pútín kynnti flaugina opinberlega haustið 2018 og sagði hana vera hannaða til þess að komast fram hjá bandarískum loftvörnum.
Flaugin er hönnuð til að vera ófyrirsjáanleg í flugi og á að geta flogið afar nærri sjávarmáli. Slík flaug væri bandarískum flugvörnum afar erfitt að skjóta niður miðað við núverandi tækni. Engu að síður virðist tilraunin fyrrnefnda hafa misheppnast sem gefur til kynna að flaugin sé ekki orðin jafn þróuð og rússnesk stjórnvöld gefa til kynna.
Misvísandi upplýsingar um geislun
Misvísandi upplýsingar hafa borist frá rússneskum stjórnvöldum um hversu mikil geislun hafi orðið af völdum slyssins. Í kjölfar sprengingarinnar gaf rússneski herinn út að eldur hafi brotist út þegar vökvaeldsneytisdrifin flaug hafi sprungið á tilraunarmiðstöð hersins og að geislun væri innan eðlilegra marka.
Hins vegar gaf sveitastjórn Severodvinsk sem er í um 40 kílómetra fjarlægð frá Arkhangels að tveir geislunarmælar hafi mælt aukna geislun. Auk þess gaf rússnesk fréttaveita út að geislun hafi farið 200 falt yfir eðlilega geislun, en fréttin var fljótlega fjarlægð af vef fréttaveitunnar.
Endalok vopnasamnings Rússlands og Bandaríkjanna
Í byrjun ágúst voru formleg endalok vopnasamnings milli Rússlands og Bandaríkjanna um bann á framleiðslu meðaldrægra kjarnorkuflauga. Samkomulagið, sem í daglegu tali er kallað INF, var sett á árið 1987 og var mikilvægur þáttur í endalokum Kalda stríðsins á níunda áratugnum.
Hins vegar hefur samningurinn verið í uppnámi á síðustu árum. Bandaríkjastjórn ásakaði ríkisstjórn Rússlands um að hafa gengið á bak orða sinna með æfingaskotum árið 2014. Samkvæmt talsmönnum Bandaríkjahers hafa Rússar framleitt tegund kjarnorkuflaugar sem sérfræðingar telja að geti verið skotið upp í um 2 þúsund kílómetra fjarlægð frá áfangastað. Rússar neituðu ásökunum og svöruðu með því að ásaka Bandaríkjamenn um að hafa gerst sjálfir brotlegir á samningnum.
Hvorugt ríkið hefur birt sannanir um brot á samningnum opinberlega, en NATO tók undir með Bandaríkjamönnum á aðalfundi þeirra í fyrrasumar. Þar sögðu talsmenn hernaðarbandalagsins meint brot Rússa vera „sennilegasta túlkunin“ á þau gögn sem þeir bjuggu yfir.
Í október í fyrra hótaði svo Donald Trump forseti Bandaríkjanna því að rifta samningnum við Rússland vegna meintra brota, svari ríkisstjórn Rússlands ekki kröfum þeirra. Rússland stóð fast í sinni afstöðu og svo fór að Trump tilkynnti endanlega að samkomulaginu yrði rift með hálfs árs fyrirvara síðasta febrúar.
Eftir nýliðin samningsslit milli Rússlands og Bandaríkjanna er aðeins einn vopnasamningur í gildi milli landanna, sem ber heitið New Start. Sá samningur kveður á um hámarksfjölda kjarnorkuodda í hvoru landinu, en samkvæmt blaðamanni Al Jazeera er útlit fyrir að að honum ljúki án endurnýjunar árið 2021.
Auknar líkur á vopnakapphlaupi
Sérfræðingar í hernaðarmálum segja riftun hernaðarsamninga Bandaríkjanna við Rússland auka líkurnar á alþjóðlegu vopnakapphlaupi. Bandaríkjaforseti virðist einnig hafa haft vopnakapphlaup í huga.
Alþjóðlegt vopnakapphlaup virðist því vera í startholunum. Til að mynda sagðist Mark Esper, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, vilja flytja meðaldrægar eldflaugar til Austur-Asíu núna um helgina, rétt eftir að samningnum við Rússland hafði verið rift. Aðspurður hvort vopnakapphlaup sé í vændum, svaraði utanríkisráðherra Rússlands því að valið væri í höndum Bandaríkjanna. Hins vegar bætti hann við að ef til vopnakapphlaups kæmi myndu Rússar aldrei tapa.
Rússar auka hernað sinn á norðurslóðum
Í skýrslu varnarmálaráðuneytis Bandaríkjanna er því haldið fram að þörf sé á að nútímavæða eldflaugavarnir og varnir gegn langdregnum flaugum á norðurslóðum. Varnarmálaráðuneytið vill enn fremur auka sjóeftirlit á hafsvæðinu milli Íslands, Grænlands og Bretland, það er hjá hinu svokallaða GIUK bili. Það falli vel að núverandi verkefnum NATO á Íslandi. Í skýrslunni segir enn fremur að hætta sé á ákveðinni keðjuverkun frá öðrum svæðum. Til að mynda geti spenna milli Bandaríkjanna og Rússlands eða Kína í öðrum heimssvæðum smitað út frá sér og skapað spennu á milli þeirra á norðurslóðum.
Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, sagði á fyrirlestri í Norræna húsinu 11. júní síðastliðinn að aukin hernaðaruppbygging Rússa á norðurslóðum, með auknum herstöðvum, kafbátum og aukinni hernaðarlegri loftumferð, valdi bandalaginu sérstaklega áhyggjum.