Tvær nýjar meðferðir hafa verið afar áhrifaríkar gegn Ebólu. Reynt var á meðferðirnar í Kongó og hafa bjargað um 90 prósenta þeirra sjúklinga sem gengust undir meðferðirnar. Meðferðirnar eru báðar tilraunameðferðir en hafa gengið svo vel að öllum sjúklingum með Ebólu í Kongó verður boðið að gangast undir þær. Þetta kemur fram í frétt the New York Times.
Meðferðirnar sem byggja á mótefni hafa vakið vonir um að hægt sé að stöðva frekari útbreiðslu faraldursins í Kongó. Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni eru um 2.800 manns sýktir af vírusnum í landinu sem stendur.
Skæð blæðingarsótt
Ebóla er bráðsmitandi blæðingarsótt en hún er nefnd eftir Ebólafljótinu í Austur-Kongó og var fyrst greind af Peter Piot, belgískum vísindamanni, árið 1976. Vírusinn kom á sama tíma fram á sjónarsviðið í Suður-Súdan og hefur komið upp annars lagið síðan, en nær eingöngu í Afríku. Talið er líklegt að vírusinn eigi upptök sín í leðurblökum.
Ebólu vírusinn hefur valdið dauðsföllum þúsunda. Ótti við vírusinn og vantraust á heilbrigðisstarfsfólki hafa skapað hindranir í að berjast gegn útbreiðslu hans. Fjölskyldur þeirra sem eru með vírusinn hafa jafnvel falið sjúklingana frá heilbrigðisstarfsfólki, að því er kemur fram í fyrrnefndri frétt.
Vona að orðið dreifist
Hinar tvær nýju sjúkdómsmeðferðir voru á meðal fjögurra sem prófaðar voru gegn vírusnum. Prófanirnar hófust í nóvember síðastliðnum og hafa alls 700 sjúklingar gengist undir meðferðina. Tvær þeirra virkuðu svo vel að mælst var með því að prófunum á hinum tveimur seinni yrði hætt.
Af þeim sjúklingum sem hvorki fá heilbrigðisþjónusti né mótefni við vírusnum látast 70 prósent þeirra, segir Dr. Michael J. Ryan, framkvæmdastjóri neyðarviðbragða Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, í samtali við the New York Times. Vísindamennirnir sem vinna að lækningunni telja að ef upplýsingarnar um mögulega lækningu dreifast manna á milli gæti fólk leitað sér hjálpar fyrr, jafnframt sem það gæti minnkað vantraust fólks á heilbrigðisstarfsfólki sem vinnur að umönnun sjúklinga sýktra af vírusnum.Miklar óeirðir hafa verið í Kongó einmitt á því svæði sem vírusinn hefur dreifst víða. Utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna hefur til að mynda bannað opinberum starfsmönnum að vinna á svæðinu, jafnvel sérfræðingum sem vinna að sjúkdómsvörnum og forvörnum.
Alþjóðasamfélagið lengi að taka við sér
Í aðsendri grein Láru Jónasdóttur, tengiliðs verkefna hjá Læknum án landamæra í Líberíu, frá árinu 2015 kemur fram að alþjóðasamfélagið hafi ekki tekið við sér fyrr en Ebóluvírusinn var orðin að alþjóðlegri öryggisógn og ekki lengur vandamál einungis örfárra þróunarríkja í Vestur-Afríku.
„Þann 8. ágúst 2014 lýsti Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) loksins yfir neyðarástandi. Ebóluvíruinn var ógn við lýðheilsu heimsbyggðarinnar. Þessari yfirlýsingu fylgdi gangverk sem losaði um fjármagn og mannauð á miklum hraða, en þá voru þegar 1000 manns fallnir í valinn,“ segir í greininni.