VR hefur náð samkomulagi við Lífeyrissjóð verzlunarmanna og fráfarandi stjórnarmenn lífeyrissjóðsins sem tilnefndir voru af VR. Þeir stjórnarmenn sem nú sitja í stjórninni í nafni VR munu láta af störfum og í stað þeirra taka sæti í stjórninni nýir stjórnarmenn sem skipaðir voru af VR þann 14. ágúst síðastliðinn. Dómsmál VR gegn Fjármálaeftirlitinu vegna málsins hefur jafnframt verið fellt niður. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá VR.
Skipuðu nýja stjórnarmenn í síðustu viku
Á fundi sem haldinn var í fulltrúaráði VR í Lífeyrissjóði verzlunarmanna í júní síðastliðnum var samþykkt að afturkalla umboð stjórnarmanna VR í stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna og var að auki samþykkt tillaga um nýja stjórnarmenn til bráðabirgða. Áður hafði stjórn VR lýst yfir trúnaðarbresti gagnvart stjórnarmönnum félagsins hjá sjóðnum vegna samþykktar stjórnar hans um hækkun breytilegra vaxta verðtryggðra sjóðfélagalána sem gengur í berhögg við hina miklu áherslu sem lögð var á vaxtalækkanir í nýgerðum kjarasamningi.Greint var frá því í fréttum í byrjun júlí að Fjármálaeftirlitið teldi afturköllun á tilnefningu stjórnarmanna sjóða vega að sjálfstæði stjórna þeirra. VR sætti sig ekki við þetta heldur stendi Fjármálaeftirlitinu í lok júlí síðastliðins fyrir að viðurkenna ekki lögmæti ákvörðunar fulltrúaráðs VR um að afturkalla umboð stjórnarmanna í Lífeyrissjóði verzlunarmanna.
Í síðustu viku skipaði stjórn VR svo nýja stjórnarmenn til bráðabirgða. Þeir eru Guðrún Johnsen, Bjarni Þór Sigurðsson, Helga Ingólfsdóttir og Stefán Sveinbjörnsson.
Fallast á sjónarmið um inngrip í sjóðsstjórnir
Í tilkynningu VR er greint frá því að VR fallist á það sjónarmið sem fram hafa komið af hálfu lífeyrissjóðsins og Fjármálaeftirlitsins um að óæskilegt sé að þeir sem fari með vald til tilnefningar í stjórn sjóðsins hlutist til um ákvarðanir sjóðsstjórnar með því að skipta út stjórnarmönnum áður en kjörtímabili þeirra lýkur og vonar að slík inngrip heyri nú sögunni til.
Dómsmál VR gegn Fjármálaeftirlitinu hefur verið fellt niður í kjölfarið. Í málinu stefndi VR Fjármálaeftirlitinu og Lífeyrissjóð verzlunarmanna og gerði verkalýðsfélagið kröfu um að dæmd verði ógild ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 3. júlí 2019 þess efnis að stjórnarmenn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna sem tilkynntir voru til Fjármálaeftirlitsins þann 23. mars 2019, væru enn stjórnarmenn lífeyrissjóðsins.
„VR lýsir yfir mikilli ánægju með þessi málalok enda nauðsynlegt að ljúka deilu VR við sjóðinn og Fjármálaeftirlitið sem fyrst og koma ró á starfsemi sjóðsins. Allir aðilar hafa haft hagsmuni sjóðsins í fyrirrúmi og þessi málalok eru gerð í sátt allra aðila með framtíð sjóðsins að leiðarljósi,“ segir í tilkynningunni.