Húsaleiga félagslegra leiguíbúða á Seltjarnarnesi mun hækka um 45 prósent í áföngum á næstu sex mánuðum. Þetta var samþykkt á bæjarstjórnarfundi í gær en 160 milljóna króna halli var á rekstri bæjarins á fyrstu sex mánuðum ársins. Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar gerðu athugasemdir við breytinguna og sögðu það vera undarlega forgangsröðun að hækka húsaleigu félagsíbúða og hafna kjarabótum leikskólakennara á sama tíma og kjarasamningur bæjarstjóra er uppfærður.
Dæmi um 60 prósenta hækkun á einu bretti
Bæjarstjórn Seltjarnarnesbæjar samþykkti í gær með fimm atkvæðum tillögu fjármálastjóra bæjarins um breytingar á húsaleigu félagslegra leiguíbúða. Breytingin tekur gildi þann 1. október næstkomandi en leigan mun hækka í áföngum á næstu sex mánuðum.
Leiga á eins og tveggja herbergja íbúðum mun hækka fyrst í byrjun október og síðan aftur janúar á næsta ári. Leiga á þriggja og fjögurra herbergja íbúðum mun hækka í þremur áföngum, 1. október, 1. janúar á næsta ári og 1. mars.
Þegar þessar hækkanir hafa komið til framkvæmda verður leigan á eins herbergja íbúð 75.833 krónur. Leiga á tveggja herbergja íbúð verður 117.537 krónur, leiga á þriggja herbergja 148.375 og fjögurra herbergja á 173.625 þúsund.
Sigurþóra Bergsdóttir og Guðmundur Ari Sigurjónsson, bæjarfulltrúar Samfylkingar Seltirninga, lögðu til að tillögunni yrði frestað þar sem engar mótvægisaðgerðir væru kynntar til að minnka fjárhagslegu áhrif hækkananna. Þau bentu jafnframt á að dæmi sé um að með breytingunni muni leiga hækka um 60 prósent á einu bretti sem sé mikið högg fyrir tekjulága.
„Ástæður þess eru að þó að við styðjum við að félagslegar íbúðir séu ekki reknar með halla þá teljum við að 45% heildarhækkun á leigu félagslegra íbúða eigi ekki að koma til án mótvægisaðgerða til að minnka fjárhagsleg áhrif fyrir viðkvæman hóp,“ segir í bókuninni.
Undarleg forgangsröðun að uppfæra kjarasamning bæjarstjóra á sama tíma
Jafnframt láta bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar færa til bókunar að þeim þyki það undarleg forgangsröðun hjá meirihlutanum að á sama fundi og kynntur er 160 milljóna króna hallarekstur í hálfsársuppgjöri bæjarins þá sé ósk leikskólakennara um framhald á tímabundnum kjarabótum hafnað og húsaleiga á félagslegum íbúðum bæjarins hækkuð um 45 prósent en kjarasamningur bæjarstjóra uppfærður.
Bæjarfulltrúarnir vísa þar til samþykktar bæjarráðs Seltjarnesbæjar á fundi ráðsins þann 22. ágúst síðastliðinn um að laun bæjarstjóra fylgi breytingum í samræmi við kjarasamninga Sambands íslenskra sveitarfélaga, samanber sviðsstjóra bæjarins.
„Þessi breyting sem felur í sér að tengja launaþróun bæjarstjóra við sviðsstjóra bæjarins er í eðli sínu ágæt en tímasetningin afleit. Bæjarstjóri fékk 40% launahækkun árið 2016 og væri eðlilegra að þessi tenging myndi vera samþykkt þegar búið verður að undirrita kjarasamninga sviðsstjóra sem nú eru lausir. Bæjarstjóri gæti þá fylgt þeirri launaþróun sem tekur við eftir það,“ segir í bókun bæjarfulltrúa Samfylkingarinnar.
4 félagslegar íbúðir á hverja 1000 íbúa
Félagslegar íbúðir á höfuðborgarsvæðinu voru alls 3.320 talsins í fyrra. Um 76 prósent þeirra eru í Reykjavík eða alls þrjár af hverjum fjórum íbúðum. Til félagslegs húsnæðis teljast félagslega leiguíbúðir, leiguíbúðir fyrir aldraða í eigu sveitarfélaga, leiguíbúðir fyrir fatlaða í eigu sveitarfélaga og aðrar íbúðir sem ætlaðar eru til nýtingar í félagslegum tilgangi.
Alls eru nú um 17 félagslegar íbúðir á Seltjarnarnesi auk tveggja framleiguíbúða, samkvæmt félagsmálastjóra Seltjarnarnesbæjar. Því eru nú um fjórar félagslegar íbúðir á hverja þúsund íbúa á Seltjarnarnesi. Til samanburðar eru tæplega 20 félagslegar íbúðir á hverja þúsund íbúa í Reykjavík.