Fjölgun örorkulífeyrisþega á undanförnum árum hefur ekki verið drifin áfram af ungu fólki líkt oft hefur verið haldið fram heldur fyrst og fremst af konum á og yfir miðjan aldur. Konur eru á hverjum tíma um 60 prósent af örorkulífeyrisþegum og munurinn milli karla og kvenna eykst með hækkandi aldri. Doktor í félagsfræði segir að greina þurfi hvað í lífshlaupi kvenna veldur auknum og vaxandi líkum á örorku.
Konur yfir fimmtugt standa undir mestri fjölgun örorkulífeyrisþega
Í nýrri skýrslu Kolbeins Stefánssonar, doktors í félagsfræði, um fjöldaþróun örorkulífeyris kemur fram örorkulífeyrisþegum hefur fjölgað umtalsvert hér á landi frá því fyrir aldamótum en að ekki sé um stöðuga fjölgun að ræða. Fjölgunin er nokkuð ör frá árinu 1994 til 2005 en eftir 2005 hægði mjög á henni. Þá bendi gögnin til þess að dregið hafi enn frekar úr fjölguninni eftir 2017.
Í skýrslunni segir að áherslan á ungt fólk og unga karla í umræðunni um örorkulífeyrisþega hafi beint athyglinni frá því sem hefur hvað mest áhrif. Fjölgun örorkulífeyrisþega frá árinu 2008 hefur ekki verið drifin áfram af fjölgun ungra öryrkja og þaðan af síður af ungum körlum heldur af konum um og yfir miðjan aldur.
Rúmlega 42 prósent af fjölguninni á síðustu tíu árum er rakin til kvenna á aldrinum 50 til 66 ára, sem er meira en samanlagt framlag karla á öllum aldursbilum til fjölgunarinnar. Konur eru jafnframt líklegri en karlar til að vera örorkulífeyrisþegar og munurinn á kynjunum vex með aldri.
Örorka er kynjapólitískt mál
Í skýrslunni segir að þetta sé vísbending um að orsakir örorku liggi ekki aðeins í lífshlaupi fólks heldur skipti munurinn á lífshlaupi karla og kvenna höfuð máli. „Það er eitthvað í þeim aðstæðum sem íslenskt samfélag býr konum sem skapar þeim auknar líkur á að fara á örorkulífeyri í samanburði við karla,“ segir í skýrslunni.
Kolbeinn telur að mögulegar skýringar á þessu gætu legið í kynbundinni verkaskiptingu á vinnumarkaði, aukinni byrði kvenna af heimilishaldi, af umönnun barna sem og eldri eða veikra fjölskyldumeðlima, og kynbundnu ofbeldi, svo dæmi séu nefnd.
„Örorka er því kynjapólitískt mál. Ef við viljum draga úr fjölgun öryrkja þurfum við að greina hvað það er í lífshlaupi kvenna sem býr til,“ segir í skýrslunni.
Undirliggjandi orsakir verið að breytast
Geðraskanir eru í dag algengasta greiningin sem liggur til grundvallar örorku- eða endurhæfingarmati og vægi geðraskanna hefur aukist stöðugt á milli 2000 og 2018. Nokkur breytingin hefur orðið á þeim sjúkdómsgreiningum sem liggja til grundvallar matinu. Á tímabilinu 2000 til 2008 var fjölgunin hlutfallslega mest í stoðkerfissjúkdómum og áverkum en geðraskanir og „aðrar ástæður“ voru skammt undan.
Á tímabilinu 2008 til 2018 hafði hinsvegar dregið mjög úr fjölgun einstaklinga með mat vegna stoðkerfissjúkdóma og áverka en í þeirra stað voru það „aðrar ástæður“, geðraskanir og innkyrtla og efnaskiptasjúkdómar sem leiddu fjölgunina. Í skýrslunni segir að þetta sé vísbending um að undirliggjandi orsakir örorku hafi verið að breytast.
Í skýrslunni kemur jafnframt fram að nokkur munur er á kynjunum hvað varðar sjúkdómsgreiningar sem liggja til grundvallar örorku- og endurhæfingarmats. Konur eru meira en tvisvar sinnum líklegri til að vera með mat á grundvelli stoðkerfisvandamála, eða 33 prósent samanborið við 15 prósent karla. Karlar eru hinsvegar líklegri en konur til að vera með mat á grundvelli geðraskana, 42,4 prósent á móti 35,7 prósent kvenna.
Raunverulegt fólk með raunverulega sögu
Að lokum segir í skýrslunni að örorka og orsakir hennar hafi tilhneigingu til að týnast í umræðunni um fjölgun öryrkja, sem sé fyrst og fremst rædd út frá útgjöldum hins opinbera og kostnaði samfélagsins. Kolbeinn ítrekar í skýrslunni að á baki við allar tölur um örorku og örorkulífeyris sé raunverulegt fólk með raunverulega sögu.
Hann segir jafnframt að til þess að draga úr fjölgun öryrkja þurfi að taka á þeim aðstæðum sem valdi því að fólk missir starfsgetuna og getu til að taka þátt í samfélaginu.
Til að að það sé hægt þurfi hins vegar að svara spurningum á borð við hvað það sé í lífshlaupi kvenna sem valdi auknum og vaxandi líkum örorku og hvaða störf það séu sem slíta starfsfólk bæði líkamlega og andlega. Auk þess spurningum um hvað valdi vaxandi kvíða á meðal ungs fólks og þá sérstaklega ungra kvenna og hvað hafi breyst sem veldur þeim breytingum á sjúkdómsgreiningum sem leiða til örorkumats.