Tryggingafélagið VÍS sendi frá sér afkomuviðvörun í gærkvöldi þar sem gert var grein fyrir því að afkoma félagsins til ársloka verði óhagstæðari en spá hafði gert ráð fyrir. Samkvæmt drögum að árshlutauppgjöri fyrir þriðja ársfjórðung verður afkoman neikvæð um 370 til 420 milljóna króna en áður hafði verið gert ráð fyrir því að hagnaður upp á 138 milljónir króna yrði af starfsemi VÍS á ársfjórðungnum.
Í tilkynningunni segir að margþættar ástæður séu fyrir þess en að mest vigti verri afkoma af skráðum hlutabréfum í eigu félagsins. Einnig skiptir máli að VÍS átti hlutdeildarskírteini í sjóðnum GAMMA: Novus, sem var færður niður í fyrradag um milljarða króna. Niðurfærsla VÍS vegna þessa nemur 155 milljónum króna.
Þar með hafa öll þrjú skráðu tryggingafélög landsins fært niður eignir vegna GAMMA: Novus. Bókfært tap TM vegna fjárfestinga í sjóðnum nemur um 300 milljónum króna og Sjóvá bókfærði tap upp á 155 milljónir króna.
Í Fréttablaðinu í dag er greint frá því að hópur hlutdeildarskirteinishafa kanni nú réttarstöðu sína um hvort refsiverð háttsemi hafi átt sér stað í tengslum við starfsemi sjóðsins.
Búið að skipta um sjóðstjóra
Kjarninn greindi frá því á mánudag að samkvæmt hálfsársuppgjör Novus-sjóðsins í fyrra hafi eigið fé hans verið 4,8 milljarðar króna. Um síðustu áramót var það sagt 4,4 milljarðar króna.
Í einblöðungi sem sendur var út til hlutdeildarskírteinishafa í gær kom fram að eigið fé hans væri 42 milljónir króna. Eigið féð hafði gufað upp og fyrir lá að virði eigna hafði verið stórlega ofmetið. Helsta eign sjóðsins er Upphaf fasteignafélag slhf. sem hefur byggt nokkur hundruð íbúðir á höfuðborgarsvæðinu frá því að sjóðurinn var settur á laggirnar 2013.
Auk þess réðst sjóðurinn í skuldabréfaútgáfu í byrjun júní sem seld var á þeim forsendum að eigið fé GAMMA: Novus væri mun hærra en það reyndist eftir endurmat á eignum.
Ingvi Hrafn Óskarsson, sem var sjóðsstjóri GAMMA: Novus, mun vera að hætta störfum hjá GAMMA. Máni Atlason, nýr framkvæmdstjóri GAMMA, hefur tekið við stýringu á sjóðnum.
Félag fyrrverandi forstjóra hagnaðist um milljarð
Kvika keypti GAMMA formlega fyrr á þessu ári þó að kaupin hafi verið að mestu frágengin í nóvember í fyrra, með fyrirvara um samþykki eftirlitsaðila. Kaupverðið átti að samanstanda af 839 milljón króna greiðslu í reiðufé, hlutdeildarskirteinum í sjóðum GAMMA og árangurstengdum greiðslum. Mikil tiltekt hefur staðið yfir í sjóðum síðarnefnda félagsins síðan þá. Sjóðum hefur verið lokað, aðrir sameinaðir öðrum sjóðum innan Kvikusamstæðunnar og tveir sjóðir, áðurnefndur Novus og útrásarsjóðurinn GAMMA: Anglia, verið færðir verulega niður. Kjarninn greindi frá því að gengi Anglia-sjóðsins hafi verið lækkað um næstum helming 30. september síðastliðinn, úr 105 í 55. Á meðal fjárfesta í honum voru íslenskir lífeyrissjóðir.
Kvika átti, samkvæmt tilkynningu að greiða um 2,4 milljarða króna fyrir GAMMA og hafði verðmiðinn þá lækkað úr 3,8 milljörðum króna á nokkrum mánuðum. Bankinn er ekki búinn að greiða nema hluta þess kaupverðs en samkvæmt hálfsársuppgjöri hans nemur sú greiðsla um 1,4 milljörðum króna. Það sem eftir stendur er að uppistöðu árangurstengdar greiðslur og því óvíst hvert lokaverðið verður.
Fréttablaðið greinir frá því í morgun að fjárfestingafélags Gísla Haukssonar hafi hagnast um tæplega 1,1 milljarð króna á árinu 2018 og að hagnaðurinn hafi aukist um einn milljarð króna milli ára. Félagið, Ægir Invest, hélt á um 30 prósent hlut Gísla í GAMMA. Í Fréttablaðinu segir að hinn mikli hagnaður skýrist af verðbreytingu á eignarhlutum í innlendum félögum í eigu fjárfestingafélags Gísla. Í félaginu eru eignir sem metnar eru á rúmlega 1,5 milljarð króna en skuldir þess námu 189 milljónum króna. Á meðal eigna eru listmunir sem metnir voru á 123 milljónir króna.
Þar er einnig sagt frá því að verið sé að taka saman greiðslur sem runnu frá fasteignafélaginu Upphafi, í eigu GAMMA: Novus, til félaga sem tengjast Pétri Hannessyni, fyrrverandi framkvæmdastjóra Upphafs, til starfsmannaleigunnar Elju, sem er stýrt og að hluta í eigu Arnars Haukssonar, bróðurs Gísla Haukssonar og til verkfræðistofunnar Erils sem var eftirlitsaðili með fasteignaverkefnum Upphafs.