Alma Möller landlæknir segir að skoða þurfi stöðu ungra kvenna í heilbrigðisstéttum í kjölfar niðurstaðna könnunar um líðan og starfsaðstæður lækna. Niðurstöðurnar sýna að um helmingur kvenkyns lækna hafa orðið fyrir kynferðislegu áreitni. Jafnframt kemur fram í niðurstöðunum að meirihluti kvenlækna telja sig undir miklu á álagi en Alma bendir jafnframt á að rannsóknir hafi sýnt að konur skili enn inn fleiri vinnustundum heima. Þetta kemur fram í viðtali við Ölmu í nýjasta tölublaði Læknablaðsins.
Tæplega helmingur kvenkyns lækna orðið fyrir kynferðislegu áreiti
Á læknadögum í Hörpu í janúar síðastliðnum voru kynntar niðurstöður könnunar um líðan og starfsaðstæður lækna. Könnunin var unnin í október á síðasta ári en alls bárust svör frá 728 læknum, eða ríflega helmingi allra lækna á Íslandi.
Í könnuninni kemur fram að tæplega fimmtíu prósent kvenkyns lækna hafa orðið fyrir kynferðislegu áreiti einhvern tímann á starfsævinni. Auk þess sögðu 7 prósent kvenlækna að þær höfðu orðið fyrir kynferðislegu áreiti á vinnustað á síðustu þremur mánuðum. Þá höfðu 1 prósent karla orðið fyrir kynferðislegri áreitni á vinnustað á síðustu þremur mánuðum og 13 prósent yfir starfsævina.
„Mér brá auðvitað þegar ég las sögurnar sem íslenskir kvenlæknar deildu í sambandi við #MeToo. Svo brá mér líka við könnunina sem Læknafélagið gerði. Það hefði verið áhugavert að vita, ef búið er að vinna með þá könnun frekar, hvort þar sæjust ólíkar niðurstöður miðað við kyn og aldur,“ segir Alma Möller, landlæknir í samtali við Læknablaðið.
Alma segir jafnframt að hún hafi spurt Læknafélag Íslands hvort búið sé að greina könnunina frekar og hvernig tekið hafi verið á málum eftir að niðurstöðurnar birtust
Kvenlæknar í þungri vinnu með þung heimili
Í sömu könnun kom jafnframt fram að 67 prósent lækna töldu sig undir of miklu álagi, að 65 prósent töldu sig hafa fundið fyrir einkennum streitu síðustu 6 mánuði eða lengur og í þessum tilvikum mun fleiri konur en karlar.
„Þá hefur maður áhyggjur af ungum kvenlæknum í þungri vinnu með þung heimili, hvernig þeim gangi að samræma vinnu og einkalíf. Það eru gerðar sífellt meiri kröfur í einkalífinu, ekki aðeins í vinnunni,“ segir Alma og bendir á að fjölmargar rannsóknir sýni að enn þann dag í dag skili konur fleiri vinnustundum innan heimilis.
Alma segir því að mikilvægt sé að skoða stöðu ungra kvenna í heilbrigðisstéttum í ljósi hás hlutfalls kynferðislegra áreitni í vinnu og mikils álags.
Tryggja að heilbrigðisstofnanir séu með áætlun gagnvart áreitni
Læknafélag Íslands hefur falið nefnd að fjalla um málefni fyrrnefndar könnunar um líðan og starfsaðstæður íslenskra lækna. Nefndinni er ætlað að sjá til þess að fræðsla og forvarnir séu virk og að Landspítali fari að lögum og komi í veg fyrir einelti og áreitni.
Ólöf Sara Árnadóttir, handa- og skurðlækni, hefur verið skipuð formaður nefndarinnar en hún leiddi hóp 433 kvenlækna og læknanema sem sendu frá sér yfirlýsingu vegna kynbundinnar mismununar, kynferðislegrar áreitni og ofbeldis undir myllumerkinu #ekkiþagnarskylda í desember fyrir rétt tæpum tveimur árum.
„Við ætlum að þrýsta á stofnanir og tryggja að þær séu með áætlun til að koma í veg fyrir áreitni og einelti og fylgja því eftir,“ segir Ólöf.