Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, segir að henni hafi liðið illa eftir að hafa horft á fréttaskýringarþátt Kveiks um Samherja í gærkvöldi. „Mér fannst þetta ömurlegt. Já ég er bara mjög hugsi eftir þetta. Þessi mynd sem þarna er dregin upp er náttúrlega mynd af græðgi sem fer úr böndunum,“ segir Svandís í samtali við Bítið á Bylgjunni í morgun.
Í fréttaskýringaþætti Kveiks í gærkvöldi kom meðal annars fram að vísbendingar væru um að greiðslur upp á að minnsta kosti 1,4 milljarða króna frá Samherja til hóps sem inniheldur meðal annars tvo ráðherra í Namibíu, væru mútugreiðslur og að viðskipti fyrirtækisins í Afríkulandinu væru skýr dæmi um spillingu. Umfjöllunin var unnin í samstarfi Kveiks, Stundarinnar, Al Jazeera og Wikileaks.
Svandís bendir á að það sem hafi verið gott við þátt Kveiks sé að hann hafi sýnt aflið sem er í góðri og metnaðarfullri blaðamennsku. „Þarna sjáum við hvað almannahagsmunum er betur gerð skil með því að fjölmiðlar fái að vinna vinnuna sína til enda.“
Svandís segir jafnframt að sannarlega sé mörgum spurningum um þetta mál ósvarað og hún líkt og aðrir í samfélaginu bíði átekta. „Þarna er um að ræða gríðarlega stóran geranda í íslensku atvinnulífi. Það er stórmál, þær ávirðingar sem þarna komu fram. Það verður að komast botns í það hvað er hæft í því sem þarna er nefnt og það er komið í farveg,“ segir Svandís og vísir í að embætti héraðssaksóknara hafi efni þáttarins nú þegar til skoðunar.
Aðspurð hvort hún eigi von á því að þetta mál verði rætt sérstaklega í ríkisstjórn svarar Svandís að hún átta sig ekki alveg á því. Næsti ríkisstjórnarfundur sé á föstudaginn og segir Svandís að henni þyki það ekki ólíklegt að þetta mál beri á góma þá.